Hótel Holt mun verða opnað aftur þann 1. september næstkomandi og er þegar byrjað að taka við bókunum. Viðræður við nýja rekstraraðila fyrir veitingastað hótelsins eru yfirstandandi, en ekki er víst hvort takist að opna veitingastaðinn á sama tíma og gistirýmið. Bókanir eru þegar farnar að berast fyrir haustið, segir Hrönn Greipsdóttir, stjórnarformaður hótelsins.

Holtið skellti í lás í byrjun apríl á þessu ári, eftir að COVID-19 faraldurinn hóf innreið sína á Íslandi. Nær öllu starfsfólki hefur verið sagt upp, en að jafnaði voru um 25–30 starfsmenn í vinnu hjá hótelinu.

Hluti starfsliðsins verður ráðinn aftur þegar hótelið verður opnað í september.  Þjónustustig hótelsins  verður þó með breyttu sniði, í það minnsta framan af. Til að mynda verður ekkert morgunverðarhlaðborð til að byrja með, segir Hrönn. Innréttingar Hótel Holts eru friðaðar og eðli málsins samkvæmt verður útlit hótelsins óbreytt við opnun þess í haust.

Rekstur Hótel Sögu hefur haldið áfram í breyttri mynd frá því í vor, en herbergi hafa meðal annars verið boðin út í langtímaleigu. Veitingastaðnum Grillinu var hins vegar lokað fyrripartinn í apríl. Nýlega sótti félagið um greiðsluskjól frá kröfuhöfum sínum.

Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður er umsjónarmaður Hótel Sögu í því ferli. Að sögn Sigurðar Kára er fjárhagsleg endurskipulagning bæði rekstrarfélags hótelsins og fasteignafélagsins til skoðunar í heild sinni, og er veitingastaðurinn Grillið þar með talinn. Sem stendur eru engar viðræður í gangi við hugsanlega rekstraraðila. Frestur Hótel Sögu til að klára fjárhagslega endurskipulagningu rennur út þann 7. október næstkomandi.