Íslensk hótel hafna kröfum erlendra bókunarsíða um endurgreiðslu á gistingu sem keypt var með þeim skilmálum að hún væri óendurgreiðanleg.
Kröfuna byggja bókunarsíðunnar á svokölluðu Force majeure ákvæði í skilmálum. Ákvæðið lýtur að óviðráðanlegum atburðum á borð við náttúruhamfarir.
„Þeir eru að krefjast þess að gististaðir á Íslandi endurgreiði slíkar bókanir,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Ferðamálastofa hafi vakið athygli á að ekki séu í gildi ferðatakmarkanir til Íslands. „Þess vegna beri gististöðum ekki samkvæmt skilmálunum að endurgreiða slíka gistingu þar sem enn er hægt að afhenda hana á Íslandi.“
Ágreiningurinn er enn óleystur. „Hér er um að ræða mismunandi skilning,“ segir Jóhannes. Samtök ferðaþjónustunnar séu sammála Ferðamálastofu. „Það er hverju fyrirtæki í sjálfsvald sett hvaða ákvörðun er tekin en við bendum á að þetta sé staðan í lagalegu tilliti.“