Höskuldur H. Ólafsson, fyrrverandi bankastjóri Arion banka, er einn átta frambjóðenda sem hafa boðið sig fram til setu í stjórn Skeljungs á aðalfundi félagsins sem verður haldinn 5. mars næstkomandi. Hann er þó ekki á meðal þeirra fimm frambjóðenda sem tilnefningarnefnd félagsins leggur til að verði kjörnir í stjórnina.

Skýrsla tilnefningarnefndar Skeljungs, sem er skipuð þeim Katrínu S. Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Hagvangs, og Sigurði Kára Árnasyni, yfirlögfræðingi í heilbrigðisráðuneytinu, var birt fyrr í kvöld. Þar er lagt til að þrír núverandi stjórnarmenn í félaginu - þau Birna Ósk Einarsdóttir, Jón Ásgeir Jóhannesson og Þórarinn Arnar Sævarsson - verði endurkjörin í stjórnina en hinir stjórnarmennirnir tveir - Ata Maria Bærentsen og Jens Meinhard Rasmussen stjórnarformaður - gefa ekki kost á sér til endurkjörs.

Auk þeirra Birnu Óskar, Jóns Ásgeirs og Þórarins Arnars mælir tilnefningarnefndin með þeim Dagnýju Halldórsdóttur, fyrrverandi stjórnarmanni í Skiptum, Mílu og ISB Holding, og Elínu Jónsdóttur, stjórnarformanni Borgunar.

Aðrir sem hafa gefið kost á sér í stjórn Skeljungs en eru ekki á lista tilnefningarnefndar eru þeir Höskuldur H. Ólafsson, fyrrverandi bankastjóri Arion banka, Jón Gunnar Borgþórsson, sjálfstætt starfandi stjórnenda- og rekstrarráðgjafi, og Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Í skýrslu tilnefningarnefndarinnar er tekið fram að það sé niðurstaða hennar að Birna Ósk, Jón Ásgeir, Þórarinn Arnar, Elín og Dagný falli sem einstaklingar mjög vel að þeim lykilþáttum í hæfni og þekkingu sem nefndin hafi lagt til grundvallar. Umræddir frambjóðendur tryggi saman bestu breidd stjórnar hvað varðar hæfniþætti, virkt eignarhald og óhæði, bakgrunn og sýn á stjórnarmannshlutverkið. Þau séu því líkleg til þess að geta myndað samheldna og öfluga stjórn.

Nefndin segir Höskuld vel hæfan, líkt og áðurnefnda fimm frambjóðendur, til þess að taka sæti í stjórn félagsins. Hann hafi mikla reynslu af því að stýra stórum fyrirtækjum sem skráð eru á markað og af setu í stjórnum. Þá falli hann vel að nokkrum þeirra hæfniþátta sem nefndin líti til við mat sitt.

„Sú þekking og reynsla er þó að miklu leyti einnig að finna meðal fyrrgreindra frambjóðenda,“ segir nefndin og bætir við: „Að virtu heildarmati á þeim sex frambjóðendum sem hér hefur verið fjallað um er það því niðurstaða nefndarinnar að samsetning stjórnarinnar og starfshæfni sé sterkust með fyrstnefnda fimm frambjóðendur.“

Tilnefningarnefndin áskilur sér rétt til þess að endurskoða fyrrnefnda tillögu sína þar til tíu dögum fyrir aðalfund. Lokafrestur til stjórnarframboðs er fimm dögum fyrir fundinn.