Í til­kynningu frá Arion banka segir að bankinn og PCC hafi slitið form­legum við­ræðum um mögu­leg kaup PCC á kísil­verk­smiðjunni í Helgu­vík. Arion banki hefur einnig sagt upp raf­orku­samningi við Lands­virkjun þar sem fram­leiðsla kísils var for­senda samningsins. Því er allt út­lit fyrir að kísil­verk­smiðjan í Helgu­vík verði ekki gang­sett á ný og að hún verði flutt eða henni fært nýtt hlut­verk.

Arion banki eignaðist kísil­verk­smiðjuna árið 2018 í kjöl­far gjald­þrots fyrri eig­anda, United Sílicon hf. Síðan þá hafi dóttur­fé­lag bankans, Stakks­berg ehf., unnið endur­bóta­á­ætlun fyrir verk­smiðjuna og hóf leit á hæfum kaup­endum sem gætu rekið verk­smiðjuna.

Í upp­hafi þessa árs gekk bankinn til einka­við­ræðna við PCC sem hefur starf­rækt kísil­verk­smiðju á Bakka og var það mat bankans að PCC byggi yfir nauð­syn­legri þekkingu og reynslu til að starf­rækja verk­smiðjuna í Helgu­vík. Full­trúar PCC og Arion banka voru sam­mála um að for­senda þess að farið yrði af stað aftur með kísilfram­leiðslu í Helgu­vík væri að slíkt yrði gert í sam­ræmi við yfir­völd og íbúa Reykja­nes­bæjar.

„Við höfum litið á það sem skyldu okkar að reyna til þrautar að nýta þá inn­viði og þau verð­mæti sem þarna hefur verið fjár­fest í. Þar höfum við horft til allra hag­aðila, ekki síst íbúa Reykja­nes­bæjar sem urðu fyrir ó­þægindum á þeim stutta tíma sem verk­smiðjan var starf­rækt,“ segir Bene­dikt Gísla­son, banka­stjóri Arion banka.

Í til­kynningunni segir að PCC hafi undan­farið kynnt á­form sín fyrir ýmsum hag­aðilum og er niður­staða þeirrar vinnu að fé­lagið telur ekki grund­völl fyrir á­fram­haldandi við­ræðum um kaup PCC á kísil­verk­smiðjunni.

Í kjöl­far þessarar niður­stöðu mun Arion banki horfa til sölu á þeim inn­viðum sem eru til staðar í Helgu­vík. Við­ræður eru þegar í gangi við nokkra aðila, inn­lenda og er­lenda, í þessu sam­bandi. Á­kvörðunin hefur ekki á­hrif á bók­fært verð­mat eignarinnar, en verð­mat verður endur­metið með hlið­sjón af þróun þessara við­ræðna.