Jacob Wallenberg, stjórnarformaður sænska fjárfestingafélagins Investor AB, segir að ríkisstjórnir eigi að horfa í ríkari mæli til efnahagsáhrifa kórónaveirunnar ella sé hætta á kreppu og mikillar ólgu í samfélaginu. „Það verður gripið til ofbeldis.“

Hann segir við Financial Times að stefnusmiðir verði að verja þá sem höllu fæti standa gagnvart kórónaveirunni en það megi ekki horfa fram hjá skaðanum sem sóttkví hefur á fyrirtæki, hvort sem það séu litlir veitingastaðir eða alþjóðleg stórfyrirtæki.

Wallenberg óttast að ef ástandið vari lengi geti atvinnuleysi farið í 20-30 prósent og landsframleiðsla víða gæti dregist saman um 20-30 prósent. „Hagkerfið mun ekki endurheimta fyrri slagkraft.“

Fjölskylda hans á ráðandi hlut í fyrirtækjum á borð við Ericsson og SEB banka.

Svíþjóð, heimaland Wallenberg, hefur ekki gengið jafn langt og mörg önnur lönd í báráttunni við kórónaveiruna. Svíþjóð hefur bannað fleirum en 500 að koma saman, leik- og grunnskólar eru opnir en menntaskólum og háskólum hefur verið lokað. Þá er fólki ráðlagt að vinna að heiman ef það á þess kost.

Wallenberg telur að slá eigi skjaldborg um eldri borgara, til dæmis með sóttkví en segir jafnframt mikilvægt að verja lifnaðarhætti okkar.