Elísabet Austmann hóf störf sem markaðsstjóri ORF Líftækni í byrjun mánaðar en hún hafði áður starfað í átta ár hjá Marel, meðal annars sem forstöðukona á alþjóðlegu markaðssviði fyrirtækisins.

Hver verða helstu verkefnin í nýja starfinu?

Að vinna með frábæru teymi hönnuða og markaðsfólks hér í fyrirtækinu að áframhaldandi vörumerkjauppbyggingu á Bio­effect húðvörulínunni og koma vörunum betur á framfæri á núverandi og nýjum mörkuðum.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Morgunrútínan er frekar einföld á virkum dögum, klukkan hringir klukkan sjö, tvö snús, sturta, ber á mig uppáhaldið þessa dagana Bio­eff­ect EGF +2A Daily Treatment sem var að koma út í nýjum umbúðum og er trufluð tvenna fyrir okkur sem erum að berjast við roða í andliti, svo kaffi og göngutúr með hundinn Frosta. Þegar við fjölskyldan bjuggum í Kaupmannahöfn vorum við dugleg að fara út um helgar í morgunmat og gerum ennþá þegar fjölskyldumeðlimir eru lausir.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég er mikil fjölskyldukona og bestu stundirnar eru með mínu fólki þegar það er fullt hús. Við hjónin erum svo lánsöm að eiga góðan hóp vina sem er alltaf gaman að hitta. Við förum á skíði, göngum með hundinn Frosta, ferðumst erlendis og innanlands þar sem uppáhaldsstaðurinn er Vestfirðir en fjölskylda mannsins míns er frá Bolungarvík og þar er algerlega dásamlegt að vera. Ég fylgist líka frekar vel með fótbolta þar sem synir mínir eru báðir að spila í Pepsi-deildinni með HK og ÍBV. Markmiðið er að bæta við golfi á þessu ári, sjáum hvort ég nái að gera það að áhugamáli! Svo er þetta kannski klisja, en ég hef brennandi áhuga á markaðsmálum og vörumerkjauppbyggingu og hef verið svo ótrúlega lánsöm að fá útrás fyrir það í gegnum mína vinnu.

Hvaða bók ert þú að lesa eða last síðast?

Ég var á flugvelli fyrir nokkru og sá þessa bók í hillunni: „The Subtle Art of Not Giving a F*ck“ eftir höfundinn og bloggarann Mark Manson. Ég hef ekki verið mikið fyrir svona bækur en mér fannst titillinn frekar skemmtilegur þannig að ég skellti mér á eintak. Þetta er ótrúlega skemmtileg bók, skrifuð á mannamáli og notar hann „f“-orðið til að leggja áherslu á það sem hann er að segja. Bókin fjallar um það að lifa í sátt við sjálfan sig í heimi þar sem gerðar eru endalausar kröfur um „meira“ eða: eiga meira, gera meira, fá meira í stað þess að gera það sem skiptir raunverulega máli fyrir þig.

Hvers konar stjórnunarhætti hefurðu tileinkað þér og hvers vegna?

Í gegnum tíðina hef ég unnið með mjög mörgu öflugu fólki og stjórnendum sem ég hef lært mikið af en einnig hef ég kynnst stjórnunarháttum sem mér líkar ekki. Ég hef tileinkað mér að koma til dyranna eins og ég er klædd, set mig ekki á háan hest og kem eins fram við alla. Ég vil að allir viti hvert við erum að stefna og hlutverk hvers og eins sé skýrt og að fólk finni að það hafi umboð til athafna.

Hverjar eru helstu áskoranirnar sem ORF Líftækni stendur frammi fyrir?

Við erum að spila á gríðarlega miklum samkeppnismarkaði með húðvörulínuna Bioeffect. Helstu áskoranir eru að ná í gegn til okkar markhóps og halda áfram að byggja upp vörumerkið í gegnum vöruþróun og vörumerkjavitund.

Hver eru tækifærin fram undan og hvað felst í þeim?

Markaðurinn sem við erum að spila á er gríðarlega stór og liggja tækifærin í þeirri einstöku uppfinningu sem ORF Líftækni hefur komið með í gegnum Bioeffect húðvörulínuna. Við erum í dag að selja Bioeffect vörulínuna okkar á um 30 mörkuðum um allan heim og stærstu tækifærin til frekari vaxtar teljum við liggja í Bandaríkjunum og stærstu hagkerfum Asíu.

Helstu drættir

Nám:

MBA frá Háskólanum í Reykjavík
B.Sc. alþjóðamarkaðsfræðingur frá Tækniháskóla Íslands.

Störf:

Framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá Orf Líftækni / Bioeffect frá apríl 2019.
Starfaði hjá Marel í 8 ár, þar sem ég byrjaði sem sýningastjóri árið 2011, tók svo við starfi þróunarstjóra hjá Marel í Kaupmannahöfn árið 2013, þar sem við settum á laggirnar sýningar- og þjálfunarhús fyrir viðskiptavini og starfsmenn. Árið 2016 tók ég við sem forstöðukona á alþjóðlegu markaðssviði og bar ábyrgð á vörumerkinu Marel og deildin sá um framleiðslu á öllu markaðsefni fyrir fyrirtækið á alþjóðavísu.
Framkvæmdastjóri sölu og markaðsmála hjá Birtingi tímaritaútgáfu frá 2008-2011.
Vörumerkjastjóri (Brand Manager) hjá Glitni Banka 2006-2008.

Fjölskylduhagir:

Er gift Hilmari Garðari Hjaltasyni, ráðgjafa hjá Capacent, og eigum við saman þrjú börn á aldrinum 21-26 ára, þau eru Máni Austmann, Dagur Austmann og Anna Björk.