Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við Markaðinn að samið hafi verið um í stjórnarsáttmálanum að horfa til frekari skattalækkana á kjörtímabilinu í samræmi við þróun ríkisfjármála.

„Við höfum lækkað skatta umtalsvert á kjörtímabilinu, og nú um áramótin tekur gildi lokaáfangi lækkunar á tekjuskatti einstaklinga sem alls skilar heimilunum 23 milljarða hærri ráðstöfunartekjum á ári. Breytingarnar skila mestu til tekjulægri, en fólk með mánaðarlaun á bilinu 350-400 þúsund krónur hefur um 120 þúsund krónum meira milli handanna á ári vegna þeirra. Auk þess hefur tryggingagjald lækkað, skerðingarmörk og fjárhæðir bóta hækkað og skattleysismörk erfðafjár- og fjármagnstekjuskatts hækkað verulega. Fjölmargir skattalegir hvatar hafa verið innleiddir til að blása auknum krafti í atvinnulífið og auka þátttöku almennings. Áfram mætti lengi telja.“

Hann bætir við að hann sé bjartsýnn á að gott samráð náist við aðila vinnumarkaðarins á komandi mánuðum.

„Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að setja stöðugleikann og þau lífskjör sem hefur tekist að verja í gegnum heimsfaraldurinn ekki í uppnám,“ segir hann og bætir við að samspil hagstjórnar skipti miklu máli.„Þar spila saman opinberu fjármálin, stjórntækin í Seðlabankanum til að halda verðbólgu sem næst markmiði og svo er það aðila vinnumarkaðarins að tryggja að launahækkanir séu í samræmi við efnahagslegan stöðugleika.“Hann segir jafnframt að það standi til að sameina stofnanir á kjörtímabilinu og auka með því skilvirkni og samlegð.

„Í mínum huga er það algjört forgangsmál að nýta krafta stjórnarráðsins sem best í verkefnin sem blasa við. Þannig hristum við talsvert upp í ráðuneytisskipan á nýju kjörtímabili, auk þess sem við horfum til þess í stjórnarsáttmálanum að sameina stofnanir og auka þannig skilvirkni og samlegð. Í fjárlagafrumvarpinu gerum við auk þess ráð fyrir um 1,5 milljarða fjárfestingu í Stafrænu Íslandi á næsta ári. Þar erum við með skýra sýn um að gjörbylta opinberri þjónustu þannig að hún verði bæði hagkvæmari, skilvirkari og aðgengilegri fyrir alla.“