Á undanförnum árum hefur fyrirtækjaskuldabréfamarkaðnum vaxið fiskur um hrygg en þó ekki jafn hratt og margir höfðu vonað. Umfangið hefur nánast staðið í stað frá áramótum en viðmælendur Markaðarins eru sannfærðir um að hann muni vaxa allhratt á komandi misserum.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar á Íslandi, segir að það séu vonbrigði að ekki hafi orðið meiri vöxtur á þessum markaði en raun ber vitni.

„Það sem slær mig er að stærðin hefur nokkurn veginn staðið í stað þegar maður lítur á umfang fyrirtækjaskuldabréfa í Kauphöllinni núna og síðan um áramótin eða fyrir ári, þótt það hafi verið örlítill vöxtur frá áramótum.

Þetta er svipuð þróun og við sjáum í útlánum bankanna,“ segir Magnús og bætir við að hann hafi átt von á að sjá meiri færslu frá bönkunum yfir í markaðsfjármögnun.

Steingrímur Finnsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Fossum mörkuðum, segir að fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn hafi þroskast umtalsvert á undanförnum árum.

„Við verðum að líta til þess í þessari umræðu hversu fábrotinn íslenskur verðbréfamarkaður var lengi vel eftir 2008 og í mörg ár voru afar fá félög skráð á markað og skuldabréfamarkaðurinn var meira og minna nýttur af ríkinu og örfáum sveitarfélögum.

Þannig að ef við tökum tillit til þess þá sjáum við að hann hefur sannarlega tekið stakkaskiptum,“ segir Steingrímur og bætir við að þróunin hafi verið í takt við væntingar.

„Það er mikil gróska á markaðnum og hún mun færast í aukana.“Þeir kveðast báðir vera mjög bjartsýnir á það að fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn muni þróast enn frekar á komandi árum. Magnús segir að með sterku hagkerfi skapist grundvöllur fyrir frekari þróun markaðarins.

Magnús Harðarson er forstjóri Kauphallar Íslands.
Fréttablaðið/Valli

„Við erum með sterkt hagkerfi, og undirstöðurnar í hagkerfinu eru svo miklu sterkari en áður, þannig að ég tel líklegt að fjárfestar horfi til fjölbreyttari kosta á skuldabréfamarkaði, ekki einungis ríkistryggðra og eignatryggðra bréfa.“

Steingrímur tekur í sama streng og segir að fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn muni koma til með að taka stórt stökk á komandi árum. „Ég tel einsýnt að fleiri fyrirtæki, sveitarfélög og viðlíka aðilar muni sjá sér hag í að nýta sér markaðinn til fjármögnunar, enda jarðvegurinn frjór í þeim efnum, “ segir hann og bætir við að það hafi skipti miklu máli fyrir grósku markaðarins að ekki sé um að ræða einsleitar útgáfur.

„Markaðurinn grundvallaðist lengi vel að mestu á tiltölulega einsleitum verðtryggðum útgáfum til handa stofnanafjárfestum. En nú er svo komið að markaðurinn býður upp á ýmiss konar útgáfur miðaðar að mismunandi fjárfestahópum. Einnig hafa verið stigin stór skref í útgáfu grænna og sjálfbærra skuldabréfa sem hafa hlotið mjög góðar viðtökur á markaði.“

Magnús tekur undir að áherslan á grænar og sjálfbærar útgáfur muni koma til með að hafa jákvæð áhrif á markaðinn. „Ef við lítum til þessara grænu bréfa eða sjálfbæru bréfa sérstaklega þá liggja þar sérstök tækifæri því þar liggur svo mikill áhugi í dag og þar erum við með ónotuð tækifæri gagnvart erlendu fjárfestunum.

Ýmis fyrirtæki eins og til dæmis í orku- og fasteignageiranum eru í góðri stöðu til að nýta sér græna fjármögnun. Við höfum verið að sjá töluverðan vöxt í sjálfbæru bréfunum.“Steingrímur bætir við að Ísland sé eftirbátur annarra þjóða ef litið er til þróunar á fyrirtækjaskuldabréfamarkaði en telur að fljótt verði breyting þar á.

„Ísland er eitt af þróuðustu ríkjum heims með tiltölulega vanþróaðan fjármagnsmarkað. Ef við horfum á hið alþjóðlega umhverfi hefur svokallað skuggabankakerfi og markaðsfjármögnun orðið mun stærri farvegur við miðlun fjármagns í hagkerfinu á undanförnum áratug.

Ísland er eftirbátur í þeim efnum og er markaðurinn að mínu mati um fimm til sjö árum á eftir þeirri þróun sem orðið hefur á erlendri grundu. Ég tel ljóst að skuldabréfamarkaðurinn muni verða enn raunhæfari kostur við fjármögnun fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra útgefenda – og þegar fram líða stundir fýsilegasti valmöguleikinn sem þessum aðilum mun bjóðast.“