„Hörður [Sigurgestsson, fyrrverandi forstjóri Eimskips] sagðist vera hrifinn af prússneskum stjórnunarstíl. Ég vissi aldrei alveg hvað sá stíll merkti. En hann fór ekkert leynt með það hvernig hann vann og nálgaðist verkefni. Hann þóttist aldrei vera einhver annar en hann var,“ segir Þorkell Sigurlaugsson um Hörð og eins konar mentor sinn, í viðtali við Jón G. Hauksson sem sýnt verður í þætti hans um viðskipti á Hringbraut í kvöld; á Þorláksmessukvöldi.

Hörður Sigurgestsson lést á síðasta ári en hann var forstjóri Eimskips í um tuttugu ár og allan þann tíma valdamesti maður atvinnulífsins, að flestra mati. Segja má að hann hafi verið eins konar gúrú í íslensku viðskiptalífi frá 1980 til ársins 2000.

Þorkell er eini gestur Jóns í þetta skiptið og koma þeir víða við enda er Þorkell mikill reynslubolti eftir rúm fjörutíu ár í framlínunni hjá Eimskip, Háskólanum í Reykjavík, Framtakssjóði og ótal öðrum stjórnum sem hann hefur setið í.

„Hörður var með mikinn aga og skipulag – og hreifst af herkænsku. Hann var baráttujaxl sem fór heiðarlega í alla hluti. Það fór samt aldrei á milli mála að hann var mættur til að keppa.“

Þorkell bætir við að Hörður hafi verið mikill pýramídastjórnandi og umgengist framkvæmdastjórana fyrst og fremst en ekki farið um fyrirtækið og hitt starfsmenn. „Hann var að því leytinu til ekki maður fólksins sem fór um og spjallaði.“

Fram kemur í þættinum að Hörður hafði ólæknandi bíladellu og ók jafnan um á BMW. „Þegar við í framkvæmdastjórninni ókum rúntinn í bænum með fjölskyldunni þá ók Hörður austur í Vík í Mýrdal og notaði ferðina til að hugsa ýmis mál í leiðinni.“

Töpuðu miklu á rekstri farþegaskips

Þorkell segir ágæta sögu af því því þegar keppinautarnir Eimskip og Hafskip ákváðu að vinna saman og gera út farþegaskipið Farskip sumarið árið 1983 – sem sigldi á milli Newcastle og Bremerhaven.

„Þetta ævintýri varð mikill skellur því tapið af því nam 2,8 milljónum dollara þetta sumar – eða sem samsvarar um 360 milljónum króna á núverandi verðlagi. En við vorum nú ekki reknir fyrir þessi mistök,“ segir Þorkell. „Þótt Halldór H. Jónsson, stjórnarformaður Eimskips, hafi frá fyrstu tíð ekki verið trúaður á verkefnið.“

Í viðtalinu er stiklað á stóru yfir feril Þorkels. Fyrir utan Eimskipsárin ræða þeir stefnumótunarkúrsinn hjá Árna heitnum Vilhjálmssyni prófessor við Háskóla Íslands, sumarstarf hjá Svissair í London og alþjóðlegt Sheraton hótel Eimskips við Skúlagötuna sem aldrei varð. Eins hvernig Háskólinn í Reykjavík var byggður upp í Nauthólsvík og samstarf Þorkels við rektorana Guðfinnu Bjarnadóttur, Svöfu Grönfeldt og Ara Kristinn Jónsson. Jafnframt ár hans sem formaður Framtakssjóðs og síðast en ekki síst fjölskylduna en Þorkell er kvæntur Kristínu Vignisdóttur.