Ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn hefur ráðið nýjan forstöðumann íþróttadeildar fyrirtækisins, ÚÚ Sport. Um er að ræða Hörð Hilmarsson sem stofnaði ÚÚ Sport fyrir um 30 árum ásamt félaga sínum, Þóri Jónssyni. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hörður hefur undanfarin 25 ár rekið eigið fyrirtæki, ÍT ferðir, sem hefur sérhæft sig í utanlandsferðum íþrótta- og sérhópa, auk móttöku erlendra íþróttahópa til Íslands.

Hörður Hilmarsson.
Mynd/Aðsend

Hörður spilaði sem leikmaður í handknattleik og knattspyrnu. Hann varð síðar þjálfari í báðum greinum, fyrst unglingalið síðan meistaraflokka.

Hörður lék handbolta með Val, KA og Stjörnunni og þjálfaði KA og Stjörnuna sem leikmaður. Í knattspyrnu lék Hörður lengst af með Val, en einnig með KA, Grindavík og sænska félaginu AIK, auk íslenska landsliðsins. Hörður þjálfaði Grindavík, Val, Selfoss, Breiðablik og FH áður en hann hætti þjálfun til að einbeita sér að starfi sínu í ferðaþjónustu fyrir íþrótta- og sérhópa.

„Hörður býr yfir mikilli reynslu og bætist í hóp öflugra starfsmanna ÚÚ sem munu áfram kappkosta við að veita hópum og einstaklingum faglega og persónulega þjónustu fyrir sanngjarnt verð,“ segir Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn.