Hörður Vilberg, sem hefur verið yfirmaður samskiptamála hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) um langt skeið, mun láta af störfum hjá samtökunum á næstu vikum og færa sig þá um set yfir til Íslandsstofu.

Hörður staðfestir það í samtali við Markaðinn en hann mun þar taka við stöðu verkefnastjóra á markaðssviði. Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífsins og stjórnvalda sem hefur það hlutverk að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Hörður, sem hóf fyrst störf hjá Samtökum atvinnulífsins í ársbyrjun 2005, er með BA-gráðu í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Áður en hann fór til SA starfaði Hörður um nokkurra ára skeið sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu.