Það er hörð samkeppni á smásölumarkaði. Þannig hefur veiking krónu komið fram í lægri framlegð þvert á það sem hefur verið haldið fram í sjónvarpsfréttum RÚV. Framlegð Haga var 21,5 prósent á þriðja ársfjórðungi samanborið við 24,6 prósent á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í verðmati Jakobsson Capital á Högum sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Greiningarfyrirtækið verðmetur Haga á 60,8 krónur á hlut en markaðsgengið er 57,6 um þessar mundir.

Tekjur Haga jukust á þriðja ársfjórðungi um 5,5 prósent frá sama tíma í fyrra. Tekjur verslunar jukust um 15 prósent á þriðja ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra en tekjur Olís drógust saman um 16 prósent, á sama tíma og umferð dróst saman um 14 prósent.

„Samdráttinn í tekjum Olís má rekja til tveggja þátta. Í fyrsta lagi Covid og fækkun ferðamanna. Í öðru lagi til umhverfisvænna orkugjafa og sparneytnari farartækja. Óvíst er um vægi hvors þáttar. Fyrri liðurinn er tímabundinn en vonandi mun það taka ferðaþjónustuna örfá misseri í viðbót að komast í fyrra horf. Stóra spurning er varðar framtíð Olís er hversu langan tíma það tekur fyrir orkuskipti í bifreiðum að eiga sér stað? Það er búið að vera ljóst í nokkuð langan tíma að aðeins samdráttur blasti við í sölu bifreiðaeldsneytis. Mikill aukning hefur verið í innflutningi bifreiða sem ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum að hluta eða öllu leyti. Það er þó jafn ljóst að það þarf að vera mikil fjárfesting í innviðum ef meirihluti fólksbíla á að ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum. Fjárfesting í innviðum og borgarskipulag taka óratíma,“ segir í verðmatinu.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Haga nam 909 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 1.200 milljóna króna á sama tíma árið áður.

Eins og áður segir er afkoman tvískipt. Rekstur Olís var rétt fyrir ofan núllið á þriðja ársfjórðungi og nam rekstrarhagnaður 17 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Rekstrarhagnaður verslunar nam 917 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 892 milljóna króna á sama tíma árið áður.