Hópur hluthafa í Festi hefur talað um það sín á milli að óska eftir hluthafafundi í félaginu vegna óánægju innan stjórnar að víkja Eggert Þór Kristóferssyni úr starfi forstjóra félagsins. Alls þarf um tíu prósent eigenda að óska eftir hluthafafundi svo að hægt sé að knýja hann fram.
Frá þessu er greint á vef mbl.is en þetta er haft eftir heimildarmönnum miðilsins en í frétt þeirra kemur fram að þau hafi rætt við hóp hluthafa sem hafa furðað sig á ákvörðuninni.
Greint var frá því í tilkynningu frá félaginu í síðustu viku að hann hefði sagt upp, að samkomulag hefði verið gert um starfslok hans og að Eggert hafi þótt æskilegt að nýr leiðtogi tæki við.
Í frétt mbl.is segir að hluthöfum hafi þótt þessi tilkynning villandi og að hún hafi sent röng skilaboð og að auk þess hafi ekki verið eining um þetta innan stjórnarinnar. Auk þess greindi miðillinn frá því í gær að pirringur væri meðal hluthafa vegna þess að ákvörðunin hefði ekki verið nægilega útskýrð fyrir þeim.
Eggert hóf störf hjá Festi, sem þá var N1, í júní 2011 sem fjármálastjóri eftir nauðasamning sem var gert maí það ár. Félagið var skráð í kauphöll í lok árs 2013. Félagið keypti svo gamla festi árið 2018 sem innihélt ELKO, Krónuna, Festi fasteignir og Bakkann vöruhótel.