Fimmtán manns var sagt upp hjá WOW air í morgun. Uppsagnirnar ná að mestu til starfsfólks á Keflavíkurflugvelli en einnig á öðrum sviðum.  Hátt í þrjú hundruð manns var í gær sagt upp hjá Airport Associates á Keflavíkurflugvelli, stærsta þjónustuaðila WOW air, vegna stöðu flugfélagsins. 

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, staðfestir í samtali við blaðið að fólki hafi verið sagt upp í morgun og að um sé að ræða eðlilegt framhald í kjölfar fækkunar á flugvélaflotanum og árstíðabundnar sveiflur. Starfsfólk sem blaðið hefur rætt við segir andrúmsloftið hafi verið undarlegt síðustu daga en að margir hafi búist við að uppsagnarbréf væru í vændum. 

Líkt og fram kom í fréttum í gær fóru samningaviðræður um kaup Icelandair á WOW air um þúfur. Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, sagði að um væri að ræða sameiginlega niðurstöðu og að aðrir fjárfestar hefðu sýnt fyrirtækinu áhuga. Hann upplýsti svo seint í gærkvöld um að fjárfestingafyrirtækið Indigo Partners hefði hug á að kaupa félagið og tilkynnti í framhaldinu Samgöngustofu og íslensk stjórnvöld um að fyrir liggi undirrituð drög að kaupsamningi við félagið. 

Fyrirtækið Airport Associates sagði 237 starfsmönnum upp í gær en líkur eru á að fyrirtækið þurfi að endurskipuleggja starfsemi sína vegna rekstrarvandræða WOW air.

Fréttin hefur verið uppfærð.