Hótel Borealis, sveitahótel í Grímsnesi sem áður hýsti meðferðarheimilið Byrgið, er gjaldþrota. Ferðamannahópi og ökumanni þess var vísað frá hótelinu í síðustu viku með þeim fregnum að hótelið væri orðið gjaldþrota.

Ekki er hægt að panta gistingu á vef hótelsins, en þá kemur upp gluggi með þeim upplýsingum að ekki sé tekið við nýjum bókunum.

Að sögn heimilda Fréttablaðsins hafa starfsmenn ekki fengið laun greidd fyrir síðasta mánuð og er búið að fara í félagið með kröfu.

Þrátt fyrir gjaldþrotið gátu viðskiptavinir keypt hópkaupstilboð um gistingu á hótelinu. Sindri Reyr Smárason, sölustjóri Hópkaups, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að viðskiptavinir fái að sjálfsögðu endurgreitt og ætti endurgreiðslan ekki að taka lengri tíma en 2-3 virka daga.

Meðferðarheimilið Byrgið var kristilegt meðferðarheimili fyrir heimilislausa fíkla og fólk með persónuleikaraskanir og var því lokað í janúar árið 2007. Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot í starfi árið 2008.