Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segist vera hóflega bjartsýnn á að ákall Seðlabankans um að teknar verði ábyrgar ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, gangi eftir. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðinum sem sýndur var á Hringbraut í gærkvöldi.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í gærmorgun að stýrivextir yrðu hækkaðir um 1 prósentustig og eru stýrivextir því nú 3,75 prósent.Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar kom fram að ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum muni skipta miklu máli um hversu hátt vextir þurfi að fara.

„Þetta ákall nefndarinnar er athyglisvert. Þau hafa stundum áður talað um þýðingu vinnumarkaðarins og hlutverk hans í hagstjórninni og það sama á við ríkisfjármálin. En það er nýlunda að kalla svo ákveðið eftir þessari breiðu samstöðu fyrirtækjanna, hreyfingar launafólks og hins opinbera um að hjálpa Seðlabankanum að ná tökum á verðbólgunni,“ segir Jón Bjarki en bætir við að hægt sé að taka heilshugar undir ákall bankans.

„Til þess að verðbólgan hjaðni að nýju eftir að skellirnir eftir Covid og stríðið í Úkraínu hafa dunið á okkur verður að tryggja að há verðbólga festist ekki í sessi. En við sjáum það meðal annars í viðbrögðum verkalýðshreyfingarinnar að þau vilja að minnsta kosti ekki taka á sig meginþungann af þessum byrðum og vilja meina að það sé fremur hlutverk stjórnvalda og fyrirtækjanna.“

Jón Bjarki segir auk þess að ríkisstjórnin hafi kynnt áætlanir til að draga fyrr úr halla á fjárlögum heldur en áætlað var.

„Hallinn í fyrra var góðu heilli minni en útlit hafði verið fyrir og það var annars vegar vegna þess að Covid aðgerðir þurftu ekki að verða eins umfangsmiklar og áætlanir höfðu gert ráð fyrir og hins vegar vegna þess hversu vel hagkerfið tók við sér. En ég get tekið undir það sem Seðlabankinn segir að ef hann er aðeins einn í aðgerðum um að ná tökum á verðbólgunni og ef aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld skella ábyrgðinni á bankann þá þurfa vextir að hækka meira en ella.“

Greiningardeildir bankanna höfðu spáð að stýrivextir myndu hækka á bilinu 0,5-1,0 prósentustig. Greining Íslandsbanka var með bjartsýnustu spána en bankinn spáði 0,5 prósentustiga hækkun. Aðspurður hvers vegna spáin hafi verið svo bjartsýn segir Jón Bjarki að þau hafi vanmetið hversu ríkan vilja peningastefnunefndin hefði til að koma böndum á verðbólguvæntingar.

„Við vorum að vega saman annars vegar verðbólguvæntingarnar sem hafa hríðversnað og þar er okkar spá keimlík spá Seðlabankans en horfurnar um áframhaldið eru vissulega tvísýnar. Á móti vegur svo að áhrif peningastefnunnar á íbúðalánamarkað eru orðin sterkari en áður og ýmis innlend fyrirtæki eru enn í viðkvæmri stöðu eftir tveggja ára faraldur. Maður átti von á því að þeir myndu dreifa hækkunartaktinum meira en það kom á daginn að mestu áhyggjur Seðlabankans eru af því að missa stjórn á verðbólguvæntingum.“