Svissneskir kjósendur höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær róttækri tillögu um að svissneskum bönkum verði bannað að „búa til“ peninga með lánveitingum sínum til fólks og fyrirtækja. Aðeins 24,3 prósent þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni studdu tillöguna, sem fól í sér að komið yrði á fót sérstöku þjóðpeningakerfi, betur þekkt sem Vollgeld, en mikill meirihluti greiddi atkvæði gegn henni.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar þykir mikill léttir fyrir Seðlabanka Sviss og bankageirann þar í landi sem beitti sér gegn því að tillagan yrði samþykkt. Thomas Jordan seðlabankastjóri sagði í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar að þjóðpeningakerfið væri „óþörf og hættuleg tilraun“ sem myndi skaða svissneska hagkerfið.

Í tilkynningu sem seðlabankinn sendi frá sér í morgun var tekið fram að önnur niðurstaða í atkvæðagreiðslunni hefði gert vinnu bankans „umtalsvert erfiðari“.

Hugmyndin um þjóðpeningakerfið, sem snýr að því að færa útgáfu peninga frá viðskiptabönkum til seðlabanka, hefur notið vaxandi stuðnings í Sviss, sem og víðar um heim, í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar á árunum 2007 og 2008.

Fylgjendur tillögunnar sögðu að fáir almennir borgararar væru meðvitaðir um getu hefðbundinna viðskiptabanka til þess að „búa til“ peninga. Í stað þess að auka peningamagnið í takt við vöxt og þarfir hagkerfisins hefðu bankar hingað til aukið peningamagnið stjórnlaust og magnað þannig efnahagssveiflur með tilheyrandi tjóni fyrir samfélagið.

Breyta þyrfti grunnhlutverki banka og fela seðlabönkum að stýra því peningamagni sem er í umferð hverju sinni.

Þeir héldu því einnig fram að peningar væru „almannagæði“ sem ríkisstofnanir á borð við seðlabankann ættu að stýra, en ekki einkabankar.

Fran Boait, framkvæmdastjóri samtakanna Positive Money, sem lýstu yfir stuðningi við tillöguna um þjóðpeningakerfið, sagði að sú staðreynd að tæpur fjórðungur kjósenda hefði samþykkt tillöguna sýndi að það væri „raunverulegur áhugi“ fyrir því á meðal almennings að gera róttækar breytingar á peningakerfinu, að því er segir í frétt Financial Times.

Sjá frétt Markaðarins: Kosið um þjóðpeningakerfi í Sviss