Hlutur sjóðastýringarfyrirtækisins RWC í Íslandsbanka er kominn undir eitt prósent. RWC fékk úthlutað 1,54 prósenta hlut sem hornsteinsfjárfestir í útboði bankans í júní og hefur því selt minnst 0,54 prósenta hlut frá útboðinu. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins.

Hinn erlendi hornsteinsfjárfestirinn í útboðinu, Capital World, hefur bætt við sig hálfri prósentu frá því í júní og fer með 4,32 prósenta hlut, segir í fréttinni.

Meðal sjóða í stýringu hjá RWC sem eiga hlut í Íslandsbanka er Al Mehwar Commercial Investments sem tengist ríkisfjárfestingafélagi í furstadæminu Abú Dabí. Yfir helmingur af hlut RWC í Íslandsbanka hefur verið skráður á Al Mehwar.