30 prósenta hlutur hjónanna Finns Geirssonar forstjóra og Steinunnar Kristínar Þorvaldsdóttur í Nóa-Síríusi var metinn á 733 milljónir króna árið 2019 í bókum FIST sem hélt utan um hlutinn. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Fram kom í morgun að norska félagið Orkla hafi eignast Nóa-Síríus að fullu. Norðmennirnir höfðu átt 20 prósenta hlut í félaginu í tvö ár.

Finnur átti einnig 2,4 prósenta hlut í eigin nafni.

Sama ár og Orkla gekk í hluthafahóp íslenska sælgætisframleiðandans hækkaði bókfært virði hlutabréfa FIST í Nóa-Síríus úr 168 milljónum króna í 733 milljónir króna.

Miðað við það var markaðsvirði íslenska fyrirtækisins um 2,4 milljarðar árið 2019.

Árið 2019 námu tekjur Nóa-Síríus um 3,5 milljörðum króna og stóðu nokkurn veginn í stað á milli ára. Hagnaðurinn jókst úr 52 milljónum króna árið 2018 í 85 milljónir króna árið 2019. Arðsemi eiginfjár var fimm prósent árið 2019. Eigið fé fyrirtækisins var 1,9 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 42 prósent.

Eignir FIST hækkuðu úr 237 milljónum króna árið 2018 í 805 milljónir króna 2019. Sjóðir vörslusafns voru bókfærðir á 34 milljónir króna. Viðskiptaskuldir stóðu í stað á milli ára og námu 168 milljónum króna.

Lynghagi átti 25 prósenta hlut í Nóa-Siríus. Félagið er í eigu systkininna Áslaugar, Hallgríms og Gunnars Snorra Gunnarsbarna. Í því félagi var hluturinn bókfærður á 608 milljónir króna.

Eigið fé félagsins var 1,1 milljarður króna árið 2019 og hafði engar vaxtaberandi skuldir.

Systkinin áttu einnig hvert 4,5 prósenta hlut í sælgætisgerðinni í eigin nafni.