Allar líkur eru á að lagt verði til að hluti af andvirði sölu á Mílu verði greitt til hluthafa en engin ákvörðun hefur verið tekin um slíkt. Þetta segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Næstu mánuðir munu einnig vísast fara í að kanna möguleg tækifæri til ytri vaxtar,“ segir hann. Ekkert slíkt tækifæri liggi þó beint við á þessari stundu og mögulegt að Síminn verði að horfa út fyrir sína kjarnastarfsemi ætli félagið sér í ytri vöxt innanlands. „Fyrst þurfa kaupin að ganga í gegn áður en hægt er að verja andvirðinu til uppbyggilegra verkefna.“

Upplýst var á laugardaginn að innviðasjóður undir stjórn frönsku eignastýringarinnar Ardian hafi komist að samkomulagi við Símann um kaup á Mílu. Heildarvirði viðskiptanna (e. Enterprise value) er 78 milljarðar króna, að meðtöldum fjárhagslegum skuldbindingum Mílu sem kaupandinn yfirtekur. Samkvæmt kaupsamningi fær Síminn greitt á efndadegi um 44 milljarða króna í reiðufé og 15 milljarða króna í formi skuldabréfs sem Síminn veitir kaupanda til þriggja ára. Áætlaður söluhagnaður er rúmlega 46 milljarðar króna að teknu tilliti til kostnaðar vegna viðskiptanna.

Salan er háð hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, hefur sagt við Markaðinn að hann fagni því að sérhæfður erlendur langtímafjárfestir sýni landinu áhuga, hvort sem það eru fjarskiptainnviðir eða annað. „Með því að bjóða velkomna hingað til lands sérhæfða erlenda fjárfesta eigum við möguleika á að auka sérþekkingu á atvinnugreininni og þar með efla hana. Það kemur hagkerfinu til góða. OECD hefur leiðbeint aðildarríkjum að fara þessa leið,“ sagði hann

Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, hefur sagt við Markaðinn að Míla muni fjárfesta hraðar í uppbyggingu en áður í ljósi breytts eignarhalds. Hann segist reikna með að fjárfestingar Mílu muni aukast úr um það bil tveimur til þremur milljörðum króna á ári í um fjóra milljarða króna á ári eftir að kaupin ganga í gegn.

Jón útskýrði að Síminn sé á hlutabréfamarkaði og hafi því Míla orðið að haga fjárfestingum sínum innan tiltekins ramma Símasamstæðunna