Hluthöfum Íslandsbanka hefur fækkað um liðlega 17 prósent á þremur vikum eftir að bankinn var skráður á hlutabréfamarkað.

Samkvæmt upplýsingum sem Markaðurinn fékk frá Íslandsbanka stóð heildarfjöldi hluthafa í gær í rétt rúmlega 20 þúsundum talsins en eftir hlutafjárútboð bankans í liðnum mánuði var fjöldi hluthafa hins vegar um 24 þúsund. Hefur þeim því fækkað um tæplega 4 þúsund en bankinn er hins vegar eftir sem áður með mesta fjölda hluthafa allra skráðra félaga á Íslandi.

Talsverður hópur hluthafa, sem tók þátt í útboðinu, hefur því selt öll sín bréf í bankanum á fyrstu dögunum eftir að hann var skráður á markað þann 22. júní síðastliðinn. Fastlega má gera ráð fyrir að þar hafi einkum verið um að ræða almenna fjárfesta. Lágmarksfjárhæðin sem hægt var að kaupa fyrir nam 50 þúsund krónum, sem var nokkuð lægra en jafnan hefur tíðkast í almennum hlutafjárútboðum hér á landi, en allir fjárfestar sem tóku þátt þurftu að sæta skerðingum á sínum tilboðum niður í eina milljón.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 20 prósent á fyrsta degi viðskipta í 5,4 milljarða veltu. Gengi bréfa bankans hefur síðan haldið áfram að hækka nokkuð en frá skráningu bankans nemur gengishækkunin um 35 prósent.

Samkvæmt tölum frá Kauphöllinni nam fjöldi einstaklinga sem átti skráð hlutabréf um 32 þúsundum í lok júní og hafði hann fjórfaldast frá því í árslok 2019.