Hluthöfum stóru félaganna í Kauphöllinni, Icelandair og Arion banka, og vaxtarfélögunum Iceland Seafood International og Kviku banka, fjölgaði umtalsvert á árinu 2020. Aukningin var á bilinu 14 til 326 prósent. Mesta aukningin er hjá Icelandair, samkvæmt samantekt Markaðarins. Þegar horft er fram hjá flugfélaginu í þessu tilliti, þar sem aukningin stingur í stúf, og Skeljungi í ljósi yfirtökutilboðs, fjölgaði hluthöfum skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni um 9 prósent á árinu 2020.

Hluthöfum fækkað frá 2015

Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá Kviku eignastýringu, segir að hluthöfum fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllina hafi almennt fækkað jafnt og þétt frá árinu 2015 þar til þeim tók að fjölga í kjölfar hlutafjárútboðs Icelandair um miðjan september síðastliðinn.

Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá Kviku eignastýringu.
Mynd/Aðsend

Hluthöfum Icelandair fjölgaði um 10.337 á árinu 2020, eða 326 prósent, og voru þeir 13.508 við árslok. Hluthöfum Arion banka fjölgaði um 900, eða 14 prósent, á árinu og voru 7.400 við lok árs 2020. Hluthöfum Iceland Seafood Internati­onal fjölgaði um 143 á milli ára, eða 32 prósent, og þeir voru samtals 595 við áramót. Fjölgunin hjá Kviku banka var 164, eða 20 prósent, og voru hluthafar 990 við árslok. Ekki er vitað hvernig fjöldi hluthafa hjá Marel hefur þróast á síðastliðnu ári, en félagið er jafnframt skráð í kauphöll í Amsterdam. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu fjölgaði hluthöfum á Íslandi á árinu.

Fjöldi einstaklinga tvöfaldaðist

Einstaklingum sem eiga hlutabréf í skráðum fyrirtækjum í Kauphöllinni fjölgaði um 8.150 á árinu 2020, eða 93 prósent. Við lok síðasta árs áttu 16.913 einstaklingar hlutabréf, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Aukinn fjölda má að miklu leyti rekja til nýrra hluthafa í Icelandair. Hluthafar Heimavalla voru með í talningunni við lok árs 2019 en ekki við lok árs 2020 enda var íbúðaleigufélagið afskráð í kjölfar yfirtöku hins norska Fredensborg.

Eggert Þór leiðir að því líkur að hluthöfum fyrirtækja í Kauphöll hafi almennt haldið áfram að fjölga á árinu 2021. „Ég tel að margir minni fjárfestar sem högnuðust vel á hlutafjárútboði Icelandair hafi fjárfest í öðrum félögum eins og til dæmis í Arion banka,“ segir hann og bendir á að í fimm mánuði í röð hafi markaðurinn hækkað um þrjú til ellefu prósent í hverjum mánuði.

„Margir högnuðust á því að taka þátt í hlutfjárútboði Icelandair og sýna því áhuga á að fjárfesta í öðrum félögum.“

Halldór Kristinsson, forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá Landsbréfum, segir að vaxandi áhugi sé á meðal almennings á hlutabréfum. Vextir séu lágir og því leiti fé úr innstæðum og skuldabréfum í hlutabréf þar sem vænta má meiri ávöxtunar. Hlutafjárútboð Icelandair hafi vakið mikinn áhuga á hlutabréfaviðskiptum á meðal almennings, fyrst á flugfélaginu og því næst á fleiri skráðum félögum. „Margir högnuðust á því að taka þátt í hlutfjárútboði Icelandair og sýna því áhuga á að fjárfesta í öðrum félögum,“ segir hann.

Halldór Kristinsson, forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá Landsbréfum.
Mynd/Aðsend

Halldór bendir á að eins og er séu miklar sveiflur á gengi Icelandair í Kauphöllinni og því sé skynsamlegt að almenningur dreifi áhættunni með því að fjárfesta einnig í fleiri félögum eða sjóðum.

Eggert Þór segir að nokkrar ástæður kunni að skýra það að almenningur hafi almennt haldið sig fjarri hlutabréfaviðskiptum undanfarin ár. Margir hafi vantreyst hlutabréfamarkaðnum eftir bankahrunið 2008, en samhliða var um langt árabil hægt að fá góða og oft áhættulausa ávöxtun með því að geyma fé á bankareikningum eða fjárfesta í skuldabréfum. Hlutabréf skiluðu almennt séð lítilli sem engri ávöxtun á árunum 2016-2018 sem hafi sömuleiðis dregið úr áhug­anum. Jafnframt hafi verið losað um fjármagnshöft á árinu 2016 og því gátu innlendir fjárfestar sótt inn á erlenda hlutabréfamarkaði.

„Að sama skapi hefur verið lítið um nýskráningar fyrirtækja í Kauphöllinni undanfarin ár og félög hafa einungis í litlum mæli sótt nýtt hlutafé á hlutabréfamarkað þar til Icelandair fór í stórt hluta­bréfa­útboð. Hlutafjárútboðið vakti áhuga almennings. Því til viðbótar vöknuðu margir upp við vondan draum um áramótin þegar rennt var yfir bankayfirlit og í ljós kom að bankainnstæður væru að rýrna að raunvirði. Innlánsvextir eru nánast á núlli. Það hefur eflaust ýtt við enn fleirum til að fjárfesta í hlutabréfum í ár,“ segir hann.

Hluthöfum Skeljungs fækkaði eftir yfirtökutilboð

Athygli vekur að hluthöfum Skeljungs fækkaði um 487 á milli ára eða 43 prósent. Halldór telur að fækkunina megi rekja til yfirtökutilboðs Strengs. Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir er stjórnarformaður Skeljungs og Strengs en fjárfestingarfélagið á nú 50,06 prósent hlut í olíufélaginu.

Jafnframt fækkaði hluthöfum Símans um 154 á milli ára eða 15 prósent. Eggert Þór segir að hlutabréfaverð Símans hafi hækkað verulega í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins og því hafi fjárfestar sem hafi átt í fyrirtækinu allt frá hlutafjárútboði líklega brugðið á það ráð að selja hlut sinn. „Síminn hefur verið einn af betri fjárfestingarkostum í COVID-19,“ bendir hann á.

Icelandair er alvöru almenningshlutafélag

„Icelandair er alvöru almenningshlutafélag í þeim skilningi að fyrirtækið er í eigu fjölmargra hluthafa og auk þess er eignarhaldið dreift,“ segir Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá Kviku eignastýringu. Eins og fram hefur komið voru hluthafar 13.508 við árslok 2020. Meðalfjöldi annarra félaga er 2.638, samkvæmt athugun Markaðarins.

Stærsti hluthafinn, Gildi lífeyrissjóður, á fimm prósenta hlut. Hann bendir á að það sé óvenjulegt að stærsti hluthafi í skráðu félagi á Íslandi eigi svo lítinn hlut. „Í sumum félögum, eins og Brimi og Eimskip, er eignarhaldið afar þröngt. 20 stærstu eiga allt að 95 prósent hlutafjár. Miðað er við að um 25 prósent hlutafjár verði að vera í dreifðri eigu til að skapa forsendur fyrir seljanleika bréfa og eðlilega verðmyndun,“ segir hann.