„Það væri áhugavert að sjá almenning verða aftur þátttakendur á innlendum hlutabréfamarkaði eins og tíðkaðist hér áður fyrr þegar því fylgdi skattaívilnun,“ segir Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir í umfjöllun Markaðarins um virkni hlutabréfamarkaðarins.

Svanhildur er stjórnarmaður í tryggingafélaginu VÍS og í gegnum eignarhaldsfélag hennar og Guðmundar Þórðarsonar, K2B fjárfestingar ehf., eru þau stærsti einkafjárfestirinn í tryggingafélaginu. Hún segir að minni velta sé vissulega áhyggjuefni og ástæðurnar séu nokkrar. Þær snúi samt flestar að því að virkum þátttakendum á markaði hafi fækkað.

„Stærstu fjárfestarnir á markaðnum, lífeyrissjóðirnir, hafa frá síðari hluta ársins 2015 beint fjármagni í aðra eignaflokka, þá helst sjóðsfélagalán og erlendar fjárfestingar. Hefur þetta haft talsverð áhrif á innlendan markað sem sést vel ef skoðuð eru hlutföll innlendra hlutabréfa í eignasöfnum lífeyrissjóða”

„Einnig hafa lífeyrissjóðirnir dregið úr eign sinni í innlendum hlutabréfasjóðum. Þetta hefur gert það að verkum að virkustu aðilarnir á markaðnum, hlutabréfasjóðir, hafa minnkað verulega veltu sína á markaði,“ segir Svanhildur.

Fjársterkir einstaklingar hafi auk þess haldið sig frá hlutabréfum og einblínt á aðrar eignir. Svanhildur segir að það megi að hluta til skrifa á fjármálahrunið og afleiðingar þess en einnig hafi fasteignamarkaðurinn dregið til sín fjármagn.

„Hlutabréfamarkaðurinn er búinn að vera í lægð í allt að fjögur ár og það dregur einnig úr vilja einstaklinga, þá sér í lagi þeirra sem kannski gætu flokkast sem spákaupmenn til að vera þátttakendur á markaðinum. Margir þeirra hafa einnig brennt sig illa og hafa því kosið að halda sig frá honum undanfarið. Mér finnst ekkert ólíklegt að þegar markaðurinn fer að glæðast á ný þá mæti þessi hópur fjárfesta í auknum mæli á nýjan leik á markaðinn,“ segir Svanhildur.

Þá segir hún að íslenska lífeyriskerfið sé með þeim öflugustu á heimsvísu hvað sjóðsöfnun varðar sem geri það þó að verkum að gríðar­legir fjármunir safnist á hendur örfárra sjóða. Í ofanálag hafi lífeyrissjóðum fækkað.

„Það gæti vissulega haft áhrif. Bæði veltan og einnig fjöldi hluthafa sem fer fækkandi í nánast öllum félögum og er hann í einhverjum tilvikum kominn langt undir mörk fyrir skráningu á aðalmarkað Kauphallar.“

„Fáir aðilar og gríðarstór og dreifð eignasöfn gera það að verkum að lífeyrissjóðirnir eru ekki sérstaklega virkir þátttakendur á íslenskum hlutabréfamarkaði. Vissulega eiga þeir af og til stór viðskipti en eru aftur á móti ekki að eiga reglulega viðskipti á markaði, hvað þá daglega,“ segir Svanhildur. Hún tekur þó fram að velta á markaði sé eitt og seljanleiki annað. „Það hefur margoft sýnt sig að íslensk hlutabréf eru nokkuð seljanleg og oft eiga sér stað viðskipti upp á nokkra milljarða. Þau viðskipti eiga sér yfirleitt stað utanþings,“ segir Svanhildur.

Telurðu að óbreytt ástand auki líkurnar á afskráningu félaga?

„Það gæti vissulega haft áhrif. Bæði veltan og einnig fjöldi hluthafa sem fer fækkandi í nánast öllum félögum og er hann í einhverjum tilvikum kominn langt undir mörk fyrir skráningu á aðalmarkað Kauphallar. Það væri áhugavert að sjá almenning verða aftur þátttakendur á innlendum hlutabréfamarkaði eins og tíðkaðist hér áður fyrr þegar því fylgdi skattaívilnun,“ segir Svanhildur.

En hefur lítil velta áhrif á áhuga erlendra fjárfesta á hlutabréfamarkaðinum?

„Lítil velta getur fælt erlenda fjárfesta frá en það er bara eitt af því sem hefur áhrif á hvort erlendir fjárfestar komi inn á markaðinn. Annað er sýnileiki, og þess vegna er mikilvægt að íslensk félög komist inn í alþjóðlegar hlutabréfavísitölur, og síðan skiptir einfaldleiki máli. Erlendir aðilar sem ætla að eiga viðskipti á innlendum markaði þurfa að setja sig upp hjá innlendum fyrirtækjum eins og staðan er í dag. Samkvæmt Kauphöll Íslands hefur staðið til nokkuð lengi að breyta þessu og að Ísland verði aðili að alþjóðlegu uppgjörskerfi. Mér skilst að það eigi að klárast fyrir vorið 2020. Ef þetta tvennt er í lagi myndi ég segja að verðlagning félaga verði helsta forsendan fyrir því hvort erlendir aðilar sýna sig hér eða ekki,“ segir Svanhildur.