Sala nýrra fólksbíla í janúar dróst saman um 17,2 prósent miðað við janúar í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu, en alls voru skráðir 733 nýir fólksbílar í ár miðað við 885 í fyrra.
Að auki var 29,2 prósent samdráttur í sölu til einstaklinga en 369 nýir fólksbílar seldust í janúar samanborið við 521 á sama tíma í fyrra. Almenn fyrirtæki keyptu hins vegar 158 nýja fólksbíla í janúar í ár miðað við 143 bíla í janúar í fyrra og er því aukning þar milli ára um 10,5 prósent.
Bílaleigur sáu 5,6 prósenta samdrátt í skráðum fólksbílum milli ára. Ef horft er til heildarfjölda skráninga þá er samt sem áður aukning í hlutfalli skráðra fólksbíla hjá bílaleigum milli ára. Í ár er hlutfall ökutækjaleiga 27,4 prósent af heildarskráningum á móti 24.1 prósenti í fyrra.
Hlutfall rafbíla er hæst þegar heildarsölu eftir orkugjöfum á árinu er skoðuð eða 26,9 prósent.