Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir gríðarlegan vöxt í sölu rafbíla um þessar mundir samhliða örum tæknibreytingum.

„Þetta er orðinn hálfgerður veldisvöxtur í þessu. Varðandi sölu á nýjum bílum og ef við tökum frá bílaleigubílana þá er hlutfall nýrra bíla sem ganga alfarið fyrir rafmagni um 45 prósent af sölunni. Ef við horfum svo á pantanir næstu sex mánaða þá er hlutfall hreinna rafbíla komið í 60 til 70 prósent."

Egill segir tækniþróunina ekki alveg komna þangað að rafbíllinn uppfylli þarfir allra viðskiptavina en það sé þó að breytast hratt.

„Það eru alltaf að bætast við fleiri og fleiri tegundir af rafbílum sem uppfylla þessar fjölbreyttu þarfir. Stærri bílar og betri rafhlöður til að mynda."

„En þetta eru alveg gríðarlegar tæknibreytingar á þessum markaði á mjög skömmum tíma. Þetta eru líklega umfangsmestu breytingarnar sem bílabransinn hefur farið í gegnum frá því að bíllinn var fundinn upp. Bæði hjá framleiðendum og söluaðilum eins og okkur. Því kauphegðunin er líka að breytast í samræmi,“ segir Egill Jóhannsson

Nánar verður rætt við Egil í Markaðnum klukkan 19:00 á Hringbraut í kvöld.