Heildarlaun sem greidd voru í hagkerfinu á síðasta ári, samkvæmt staðgreiðslugögnum frá Ríkisskattstjóra, drógust saman um 1,6 prósent á síðasta ári frá árinu 2019, þrátt fyrir að launavísitalan hafi hækkað um 6,3 prósent.

Þetta kom fram í vorskýrslu kjaratölfræðinefndar sem var kynnt í morgun.

Ástæða lægri heildarsummu launagreiðslna er aukið atvinnuleysi og lækkað starfshlutfall hjá stórum hluta vinnuaflsins. „Þetta skýrist af 4,8 prósent fækkun starfandi fólks og fækkun vinnustunda vegna skerts starfshlutfalls og minni yfirvinnu [...] . Launagreiðendum fækkaði um 2 prósent milli áranna 2019 og 2020.

En þrátt fyrir minni launagreiðslur þá jukust ráðstöfunartekjur íslenskra heimila á síðasta ári um 7,1 prósent á síðasta ári.

Áðurnefndar launatekjur heimilanna drógust saman um 2 prósent milli ára, en áætl[1]uð aukning lífeyristekna og félagslegra tilfærslna er metin á ríflega 105 milljarða frá fyrra ári, samkvæmt skýrslu kjaratölfræðinefndar.

Það svarar til um 27 prósent aukningar, og áttu stærstan þátt í að heildartekjur heimilanna jukust um 3 prósent frá fyrra ári. Þar af nam aukning í greiðslum almennra atvinnuleysisbóta ríflega 30 milljörðum. Greiðslur hlutaatvinnuleysibóta er talin hafa numið um 23,5 milljörðum á árinu.

Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur námu um 18 prósentum af heildartekjum heimilanna árið 2020, samanborið við ríflega 14 prósent árið 2019.

Hlutfall launatekna af heildartekjum heimila var jafnframt um 58 prósent á síðasta ári, sem er það lægsta síðan 2014.