Hluteign, nýtt fjártæknifélag mun á næstu misserum bjóða upp á fjárfestingar í fasteignum óháð eiginfjárstöðu og lánstrausti. Kaupendum verður boðið að kaupa hlut í fasteignum í stökum fermetrum með fyrir fram ákveðnu framlagi.

„Þetta verða nýjar eignir sem við kaupum beint af verktökum,“ segir Einar Þór Gústafsson, stjórnarmaður félagsins en hann hefur hefur starfað í fjármálatækni í yfir 20 ár m.a. sem forstöðumaður vefþróunar hjá Íslandsbanka og framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Meniga.

„Þetta verða eignir sem eru á góðum stað í topp standi. Í raun er þetta með milligöngu sem við kaupum hana og seljum í bútum til þeirra sem vilja taka þátt. Það geta þá verið hátt í tvö hundruð manns sem eiga eina fasteign,“ segir hann.

Fáir markaðir eins gjöfulir

Einar bendir á að fáir fjárfestingarkostir hafi reynst landsmönnum jafn gjöfulir og fasteignakaup.

„Á höfuðborgarsvæðinu hefur íbúðarverð hækkað að nafnvirði um rúmlega 850% á síðustu 25 árum. Við vitum það hins vegar að fjölmargar hindranir geta staðið í vegi fyrir fólki sem vill stíga inn á markaðinn og heftir þannig aðgengi fjölmargra að þessari arðbæru fjárfestingu,“ segir Einar Þór.

Bundnar eru vonir við að fyrstu eignir fari í sölu í byrjun næsta árs en skráning er þegar hafin á biðlista sem skilar skráðum aðilum 48 klukkustunda forkaupsrétti við opnun.

Aðspurður hvort margir hafi skráð sig núþegar segir Einar svo vera.

Það er ansi góður fjöldi sem kemur skemmtilega á óvart þar sem við höfum ekki mikið auglýst af viti ennþá. En þrátt fyrir það fengið mjög góðar undirtektir og það er svolítið það sem við viljum fá að sjá núna, hversu margir hafa áhuga á að kynna sér þetta nánar.

Einar Þór segir að fáir markaðir bjóði upp á eins örugga ávöxtun og fasteignamarkaðurinn en hingað til hafi þurft stóra fjármuni til að komast inn á hann.
Fréttablaðið/GVA

Nýbyggingar þýði minni viðhaldskostnað

Með tilkomu Hluteignar munu einstaklingar fjárfesta frá 10.000 krónum og allt að 10 milljónum, og eignast þannig hlut í fasteign í takt við fjárfestinguna. Hluteigendur muni svo njóta góðs af hækkun fasteignaverðs í bland við hluta af leigutekjum.

Einar bendir einnig á að þar sem um nýbyggingar sé að ræða verði viðhaldskostnaði haldið í lágmarki. „Við ætlum að reyna að velta eins miklu og við getum af leigutekjunum aftur til þeirra sem fjárfesta. Þannig er fólk að fá vexti á sína peninga, ekki bara mögulega hækkun fasteignaverðs,“ segir Einar Þór

Framtakið á sér ekki hliðstæðu á Íslandi og hefur ekki heldur sést áður í Evrópu.

„Við höfum rekist á svipuð verkefni í Bandaríkjunum, meðal annars eitt sem Jeff Bezos eigandi Amazon hefur fjárfest í. Hvort módelin séu þó nákvæmlega eins veit ég ekki en þau eru keimlík,“ segir Einar Þór sem telur að með þessu sé blað brotið á íslenskum fasteignamarkaði.

Eignin seld eftir ákveðinn tíma

Einar Þór segir að fyrirkomulagið verði þannig að eignin verði seld eftir ákveðinn tíma, líklegast fimm ár og þá á markaðsverði.

„Auðvitað getum við ekki lofað neinu með mögulega hækkun en þetta mun alltaf fylgja verðþróun fasteigna, sem fylgir oftar en ekki verðbólgu. Þá selst fasteignin á markaðsverði,“ segir hann en kaupendur munu einnig hafa möguleikann á að losa fjármuni sína fyrr.

„Fólk mun geta losað peningana fyrr. En þetta er samt svolítið eins og með hlutabréf. Þú getur selt svo fremi sem einhver vill kaupa. Þannig getum við ekki tryggt að þú getir selt á þessu tímabili. Þó að við munum búa til þann markað að þú getir selt og keypt,“ segir Einar Þór.

Einungis nýbyggingar til að byrja með

Einar segir að einungis verði um nýbyggingar að ræða til að byrja með en útilokar ekki að eldri fasteignir gætu verið teknir á skrá hjá Hluteign síðar meir.

Allavega til að byrja með verða þetta bara nýbyggingar og það er þá aðallega útaf viðhalds kostnaði og vilji okkar til að hámarka ávöxtun til þeirra sem fjárfesta. En ég myndi ekkert loka á það. Svo lengi sem þetta er góð eign á góðum stað í góðu standi. En við viljum bara byrja þetta einfalt og sjá hvort fólk er tilbúið til að koma með í þessa vegferð.

Hægt er að kynna sér kaup og kjög Hluteignar betur á heimasíðunni fyrirtækisins: www.hluteign.is