Hlutdeildarlánin voru fyrst kynnt í apríl 2019 sem hluti af átaki stjórnvalda á húsnæðismarkaði. Þeim var ætlað að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum að brúa bilið við fasteignakaup.

Fréttablaðið hefur undir höndum svör Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til umsækjenda um hlutdeildarlán þar sem kemur fram að engar íbúðir uppfylli skilyrði um hámarksverð um þessar mundir.

Þá segir jafnframt í svörunum að stofnunin hafi ekki svigrúm til að samþykkja neinar undanþágur, jafnvel þótt öll önnur skilyrði úrræðisins séu uppfyllt.

Reglugerð um hlutdeildarlán er á ábyrgð Innviðaráðuneytis en viðmiðunarverðin sem um ræðir eru endurskoðuð árlega.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda, segir ljóst að stjórnvöldum hafi ekki tekist að auðvelda tekjulágum hópum að komast inn á markaðinn með þessu úrræði.

„Ef ég tala fyrir okkar félagsmenn, sem er að stærstum hluta tekjulágt fjölskyldufólk, þá hefur þetta úrræði ekki virkað fyrir þann hóp. Það er alveg klárt. Þetta er ekki einu sinni álitinn valkostur hjá þeim sem eru að reyna að brjótast út af leigumarkaði.“

Þessa upplifun segir Guðmundur vel hægt að sannreyna með því að skoða gögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

„Hreyfingin á fólki yfir 34 ára og eldri út af leigjendamarkaði er á bilinu hálft til eitt komma fjögur prósent. Þetta nær ekki til þeirra. Það er meiri líkur á að læknast af illvígum sjúkdómi en að komast út af leigumarkaði. Það er bara staðan í dag og hún hefur ekkert breyst með tilkomu þessa úrræðis.“

Verð á því sem á að heita hagkvæmt húsnæði í Reykjavík er komið upp undir 900 þúsund krónur á fermetra

Að mati Guðmundar er helsta vandamálið að viðmiðunarfjárhæðin sem ráðuneytið gefur út, haldi engan veginn í við markaðinn.

„Við höfum vísbendingar um að staðan á markaðnum í dag sé þannig að söluverðmæti þessara íbúða, sem áttu að ná til tekjulágra hópa, er allt að þrisvar sinnum hærra en byggingakostnaður. Verð á því sem á að heita hagkvæmt húsnæði í Reykjavík er komið upp undir 900 þúsund krónur á fermetra.“

Hann segir þá hagnast helst á úrræðinu sem vilji umfram allt viðhalda framboðsskorti.

„Auðvitað er best fyrir byggingaraðila að ferðmetraverðið sé í þessum hæðum og að munurinn á byggingarkostnaði annars vegar og söluverðmæti hins vegar sé sem mestur. En þá veltir maður því líka fyrir sér, í ljósi hástemmdra yfirlýsinga þeirra sem hafa talað fyrir þessu úrræði, hvað menn meintu eiginlega þegar þeir töluðu um hagkvæmt húsnæði eða bjargráð til þeirra sem mest þurfa á að halda.

Guðmundur segir hlutdeildarlánin helst gagnast ungu barnlausu fólki sem leigi svo íbúðirnar út.

Guðmundur segir ekkert nýtt að vald verktakans sé algert. En það sé þó öllu verra að það sé enginn raunverulegur vilji stjórnvalda til að vinda ofan af ástandinu.

„Það var talað um það í upphafi að það yrðu ákvæði um byggingarkostnað inni í þessari reglugerð. Það varð ekki raunin. Sennilega vegna þess að það er enginn raunverulegur vilji til að taka á þessu eða mæta þörfum viðkvæmra hópa. Eða hvernig á maður annars að túlka svona úrræði? Sem gagnast helst þeim sem auðgast á ástandinu. Með sína 200 prósent álagningu á íbúðum sem kerfið hvetur þá til að reisa.“

Hann segir úthlutanir þessara lána helst hafa gagnast ungu barnlausu fólki sem leigi íbúðirnar svo aftur út.

„Við sjáum það á þeim aðgerðum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur þurft að grípa til vegna óleyfilegrar útleigu á íbúum sem falla undir þetta úrræði. Þetta er ekki sá hópur sem talað var um að mæta“

Guðmundur segir að úrræðið hafi upphaflega vakið von í brjósti þeirra sem versta standa á húsnæðismarkaði. Sú von hafi síðan orðið að engu með tímanum.

„Ég efast ekkert um að ásetningur ráðamanna hafi verið góður. Enda er leiðin til heljar gjarnan vörðuð góðum ásetningi. En þetta er bara ekki að skila sér. Verðið á ódýrustu eignunum hefur haldið áfram að rjúka upp. Meðal annars vegna skorts á gagnsæi og þeirri stefnu stjórnvalda að viðhalda því valdi sem verktakar og byggingaraðilar hafa á fasteignamarkaðnum. Hagur þess hóps sem verst stendur hefur síður en svo vænkast“ segir Guðmundur