Tempo, hlutdeildarfélag Origo tilkynnti í dag um kaup á ALM Works Inc. sem hefur höfuðstöðvar Boston í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum.

ALM Works er hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur þróað verkefnastjórnunarkerfi fyrir hugbúnaðargerð sem hjálpar þróunarteymum að bæta ákvarðanatöku, auka skilvirkni og ná tilætluðum árangri. Auk höfuðstöðvanna í Massachusetts er fyrirtækið með starfsstöð í Sankti Pétursborg í Rússlandi

Árleg sala fyrirtækisins nemur um það bil 23 milljónum Bandaríkjadala og EBITDA framlegð er yfir 20 prósent.

Kaupin eru fjármögnuð af hluthöfum Tempo, ytri fjármögnun og útgáfu nýrra hluta. Eignarhlutur Origo hf í Tempo, sem var fyrir um 49 prósent, verður um 41 prósent eftir kaupin.

Tempo er leiðandi fyrirtæki á sviði hugbúnaðarlausna fyrir tímastjórnun og hámörkun framleiðni.