Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, Eva Sól­ey Guð­björns­dóttir, fram­kvæmda­stjóri fjár­mála, og Elísa­bet Helga­dóttir, fram­kvæmda­stjóri mann­auðs, segja að Icelandair hafi staðið af sér ýmsar raunir í gegnum tíðina en að staðan sem er í sam­fé­laginu núna hafi reynst fé­laginu og flug­heiminum öllum mest krefjandi.

Þetta kemur fram í inn­sendri grein þeirra í Morgun­blaðinu í dag en þar er fjallað um hluta­fjár­út­boð og endurskipulagningu Icelandair. Í greininni kemur fram að starfs­menn fé­lagsins hafi síðast­liðna sex mánuði unnið dag og nótt við að undir­búa út­boðið og að samið hafi verið við helstu hags­muna­aðila.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, Eva Sól­ey Guð­björns­dóttir, fram­kvæmda­stjóri fjár­mála, og Elísa­bet Helga­dóttir, fram­kvæmda­stjóri mann­auðs.
Mynd/Samsett

Hver dagur skipti máli

Í greininni kemur fram að ef út­boðið gengur vel og fé­laginu tekst að ljúka fjár­hags­legri endur­skipu­lagningu með far­sælum hætti að þá hefur fé­laginu fyrst og fremst tekist að vekja von hjá þúsundum starfs­manna stéttar­fé­laganna.

„Icelandair Group verður þá jafn­framt til­búið til að gegna lykil­hlut­verki í við­spyrnunni á Ís­landi þegar eftir­spurn ferða­manna tekur við sér. Það mun verða mjög mikil­vægt fyrir þúsundir starfs­manna ferða­þjónustu­fyrir­tækja um allt land sem sjá fram á erfiða mánuði fram undan. Þar skiptir hver dagur máli. Um þetta snýst fjár­hags­leg endur­skipu­lagning Icelandair Group.“

Með út­boðinu freistar Icelandair þess að auka hluta­fé fé­lagsins en gert er ráð fyrir að selja nýja hluti á genginu 1 króna á hlut fyrir alls 20 milljarða. Komi til um­fram­eftir­spurnar hafi stjórnin heimild til að auka hluta­fé um allt að þrjá milljarða og þannig verði stærð út­boðsins að há­marki 23 milljarðar króna.

„Að mati fé­lagsins felast veru­leg tæki­færi í við­skipta­líkani Icelandair,“ segir í greininni og því bætt við að líkur séu á því að lönd eins og Ís­land verði eftir­sóknar­verðir á­fanga­staðir eftir að ó­vissan vegna CO­VID-19 far­aldursins minnkar. Útboðið hefst næst­komandi mið­viku­dags­morgun og lýkur klukkan 16 á fimmtu­daginn

Áhrif á hagkerfið gríðarleg

Í greininni kemur enn fremur fram að þrátt fyrir að hags­munir nú­verandi hlut­hafa séu hafðir að leiðar­ljósi við vinnu fé­lagsins, svo sem endur­skipu­lagningu og út­boð, þá hafi vinnan undan­farna mánuði fyrst og fremst snúist um að tryggja fram­tíð Icelandair og verja störf.

Vísað er til þess að yfir háanna­tíma fé­lagsins í fyrra hafi starfs­menn fé­lagsins verið 4.500 talsins, þar sem fé­lags­menn FFÍ, VR og stéttar­fé­lögum innan ASÍ voru fjöl­mennastir meðal starfs­manna. Þá segir að vegna þeirra hafi fé­lagið greitt um 300 milljarða í formi launa og tryggingar­gjalds og líf­eyris­sjóða­fram­laga beint í ís­lenska hag­kerfið síðast­liðinn ára­tug.

„Bein já­kvæð á­hrif á hag­kerfið hafa því verið gríðar­leg svo ekki sé minnst á þau ó­beinu. Tugir þúsunda fjöl­skyldu­með­lima starfs­manna Icelandair Group hafa beina hags­muni af því að fé­lagið vaxi og dafni og komist með far­sælum hætti í gegnum nú­verandi á­stand.“

Fara spennt inn í vikuna

Í Morgunblaðinu var enn fremur rætt við bankastjóra Íslandsbanka, Birnu Einarsdóttur, og bankastjóra Landsbankans, Lilju Björk Einarsdóttur, þar sem þær sögðu að vikan yrði spennandi en Landsbankinn og Íslandsbanki sölutryggja útboðið.

„Það er langt síðan jafn stórt hlutafjárútboð fór fram á íslenskum hlutabréfamarkaði og gaman að sjá það líf sem færst hefur í markaðinn,“ sagði Birna í samtali við Morgunblaðið um málið. „Mikilvægt er fyrir atvinnulífið, og ferðaþjónustuna sér í lagi, að flugfélagið nái góðri viðspyrnu með hlutafjárútboðinu. Þegar viðspyrnan kemur eru allir klárir í bátana.“

Lilja tók í svipaða strengi og sagðist fara bjartsýn inn í vikuna. „Ég held að allur þorri fólks átti sig á því að hér á landi er búið að byggja upp flugfélag með mjög umfangsmikla starfsemi sem felst ekki bara í flugi frá A til B heldur ótal tengimöguleikum og hliðarstarfsemi. Þessi uppbygging hefur átt sér stað yfir nokkurra áratuga skeið og við höfum ekki efni á að glutra henni niður.“