Hlutafé Korta, sem var selt fyrir skemmstu til alþjóðlega fjártæknifyrirtækisins Rapyd, var aukið um rúmlega 200 milljónir króna í liðnum mánuði. Það var Kvika banki, sem var fyrir söluna stærsti hluthafinn með yfir fjörutíu prósenta hlut, sem skráði sig fyrir hinu nýja hlutafé í C-flokki með umbreytingu á útistandandi skuld færsluhirðingarfyrirtækisins við bankann. Eftir hlutafjáraukninguna nemur hlutafé Korta rúmlega 1.721 milljón króna að nafnverði.

Tilkynnt var um undirritun kaupsamnings Rapyd á Korta í apríl á þessu ári – þau gengu endanlega í gegn í síðustu viku – en í samtali við Markaðinn á þeim tíma var haft eftir Arik Shtilman, forstjóra Rapyd, að félagið hyggðist ráðast í verulega fjárfestingu á íslenska markaðnum og muni líklega tvöfalda starfsmannafjölda Korta á næstu þremur árum, en í dag starfa um 40 manns hjá fyrirtækinu. Fjárfestingunni er ætlað að byggja upp miðstöð vöruþróunar Rapyd í Evrópu.

Miðað við síðustu hlutafjáraukningu Rapyd er félagið metið á um 150 milljarða íslenskra króna, en á meðal hluthafa eru fjártæknirisinn Stripe Oak HC/FT, Tiger Global Management, General Catalyst og Target Global.

Samkvæmt heimildum Markaðarins nemur áætlað kaupverð Rapyd á Korta á þriðja milljarð króna. Endanlegt kaupverð ræðst hins vegar af afkomu Korta á þessu ári og getur tekið breytingum til lækkunar eða hækkunar.

Kvika og hópur einkafjárfesta keyptu Korta á eina krónu í lok árs 2017 og lögðu félaginu um leið til nærri 1.500 milljónir í nýtt hlutafé til að forða því frá gjaldþroti. Ári síðar var hlutafé Korta aukið um 1.055 milljónir króna.

Heildartap Korta á síðasta ári nam um 146 milljónum, borið saman við tap upp á 465 milljónir árið 2018.