Hlutafé Freyju framtakssjóðs, sem er í rekstri Kviku banka, var hækkað um ríflega 1,9 milljarða króna í janúar síðastliðnum til þess að standa straum af kaupum sjóðsins á tæplega sextán prósenta hlut í Arctic Adventures.

Í kjölfar hækkunarinnar er hlutafé framtakssjóðsins um 2,7 milljarðar króna en alls nema áskriftarloforð um átta milljörðum króna frá hátt í tuttugu fjárfestum, mestmegnis lífeyrissjóðum.

Tilkynnt var um fjárfestingu Freyju í Arctic Adventures um miðjan janúar en samkvæmt heimildum Markaðarins miðaðist kaupverð sjóðsins við að heildarvirði ferðaþjónustufyrirtækisins væri samanlagt liðlega tíu milljarðar króna.

Um var að ræða aðra fjárfestingu sjóðsins, sem settur var á stofn um mitt ár 2018, en áður hafði hann keypt tæplega helmingshlut í Ísmar, félagi sem sérhæfir sig í tækjabúnaði til meðal annars hvers konar landmælinga, vélstýringa og lasertækni. Freyja fjárfestir einkum í óskráðum félögum.

Samkvæmt gögnum úr fyrirtækjaskrá eru lífeyrissjóðirnir Birta, Gildi og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stærstu fjárfestar framtakssjóðsins með tuttugu prósenta hlut hver. Hlutur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna nemur fimmtán prósentum og þá fer Festa lífeyrissjóður með fimm prósenta hlut.

Kvika banki fer með 8,6 prósenta hlut í Freyju en á meðal einkafjárfesta, sem fara hver um sig með minna en eins prósents hlut í sjóðnum, eru þau Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Hreggviður Jónsson og Ingibjörg S. Ásgeirsdóttir.