Hlutafé Alvogen Iceland ehf., eins af fjölmörgum dótturfélögum sem heyra undir samstæðu lyfjafyrirtækisins, hefur verið aukið um rúmlega 16,2 milljarða króna.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá fyrirtækinu var það Alvogen Lux Holdings, eini eigandi félagsins, sem stóð að hlutafjáraukningunni í maí á þessu ári og var hluthafalán sem félagið hafði veitt Alvogen Iceland, gert upp á sama tíma. Íslenska félagið hefur fram til þessa verið fjármagnað með lánveitingum frá móðurfélaginu í Lúxemborg allt frá stofnun, fyrir um áratug.

Samkvæmt síðasta birta ársreikningi stóð skuld Alvogen Iceland við Alvogen Lux Holdings í rúmlega 12 milljörðum króna í árslok 2018. Eigið fé félagsins var þá neikvætt um 11,7 milljarða, en á árinu 2018 nam tap af rekstrinum nærri 3 milljörðum króna. Vaxtakostnaður af skuldum félagsins við tengda aðila nam þannig um 640 milljónum króna á því ári.

Samkvæmt ársreikningi Alvogen Lux Holdings var tap af rekstrinum upp á um 203 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 28 milljarða króna á núverandi gengi, á síðasta ári, borið saman við 70 milljóna dala tap árið áður. Rekstrartekjurnar voru um 857 milljónir dala og drógust saman um rúmlega 250 milljónir dala. Eigið fé félagsins var um 117 milljónir dala í árslok 2019.

Samið var um sölu á starfsemi Alvogen í Mið- og Austur-Evrópu í október á síðasta ári til Zentiva Group, með fyrirvara um samþykki evrópskra samkeppnisyfirvalda. Endanlega var síðan gengið frá sölunni í apríl á þessu ári. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp, en fram kom í frétt Reuters árið 2018 að Alvogen hefði stefnt að því að fá um einn milljarð dala fyrir starfsemina.

Í samtali við Viðskiptablaðið í maí var haft eftir Árna Harðarsyni, aðstoðarforstjóra Alvogen, að markmið fyrirtækisins væri að hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta (EBITDA) yrði nærri 300 milljónir dala á þessu ári og því næsta – að undanskilinni starfseminni í Mið- og Austur-Evrópu var EBIDTA félagsins 121 milljón dala í fyrra – og um 556 milljónir dala að tveimur árum liðnum.

Alvogen er í meirihlutaeigu alþjóðlegu fjárfestingarsjóðanna CVC Capital Partners og Temasek. Þá hefur verið greint frá því að Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvogen, eigi óbeint um 22 prósenta hlut í lyfjafyrirtækinu í gegnum fjárfestingafélagið Aztiq Pharma.