Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur hækkað um rúmlega þrjú prósent í 65 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi í Kauphöllinni. Hlutabréfaverðið stendur núna í 6,75 krónum á hlut en á þessu ári hefur gengið hæst farið í 11,1 krónu í júní.

Bogi Nils Bogason, forstjóri flugfélagsins, sagði í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag lausafjárstaða Icelandair vera sterka þrátt fyrir að hún hafi minnkað um meira en 60 milljónir dala á milli ára og hefði verið 175 milljónir dala í lok annars fjórðungs á árinu.

Benti Bogi á að félagið væri jafnframt með reiðufé inn í þeim félögum sem eru í sölumeðferð við höfum yfirráð yfir og vísaði þá til Icelandair Hotels og Iceland Travel.

Þá sagði Bogi að félagið væri með óádregnar lánalínur hjá bönkum sem ekki væri búið að nota. „Ef þú tekur þetta allt saman þá var lausafjárstaðan 233 milljónir Bandaríkjadala eða tæplega 30 milljarðar króna í lok júní. Í ofanálag erum við með mikið af eignum, flugvélum og fasteignum, sem eru óveðsettar sem við getum nýtt ef þörf krefur.“

Ekki kæmi því til greina að sækja aukið fjármagn til hluthafa á næstunni. „Það hefur ekki verið á teikniborðinu og það er ekkert í vinnslu innanhúss hvað það varðar,“ sagði Bogi.