Hlutabréfavísitalan OMXI10 á Íslandi hefur hækkað um tæplega 45 prósent frá því áður en heimsfaraldurinn byrjaði, sé miðað við janúar 2020. Hlutabréf tóku skarpa dýfu á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs þegar faraldurinn hafði náð tökum á heimsbyggðinni.

Frá því að OMXI10 hlutabréfavísitalan náði lágmarki sínum í upphafi faraldursins í mars á síðasta ári hefur hún síðan hækkað um 92 prósent.

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arion banka, segir að lágvaxtaumhverfi um allan heim sé einna helsti drifkraftur verðþróunar á hlutabréfamörkuðum. Hann segir hækkun á hlutabréfaverði ekki bundna við Ísland, sama þróun hafi verið um mestallan heim.

Hækkanir á hlutabréfamörkuðum birtist meðal annars í ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða, en flestir skiluðu afar góðri ávöxtun á síðasta ári. Flestir hverjir sýndu í kringum 10 prósent raunávöxtun á síðasta ári.

„Það er sama með vel flest skráðu félögin og hagkerfið í heild sinni, hvort tveggja virðist ætla að komast betur undan faraldrinum en óttast var fram eftir síðasta ári. Neysla innanlands hefur tekið við sér og fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja er framar vonum í samhengi við áfallið. Að undanskilinni ferðaþjónustunni hafa útflutningsfyrirtækin haldið sjó og á markaði notið góðs af veikari krónu,“ segir Stefán Broddi.

Vaxtastig á Íslandi er um þessar mundir í sögulegu lágmarki. Sambærileg staða er uppi víða um heim. „Í lágvaxtaumhverfi leitar fjármagn í áhættusamari fjárfestingar og lengri binditíma, svo sem hlutabréf. Við höfum líka séð mikið af endurkaupum skráðra félaga á eigin bréfum sem og arðgreiðslur sem ekki var raunin í miðjum faraldrinum á síðasta ári en hvort tveggja styður við hlutabréfaverð,“ segir hann.

„Næstu mánuðir verða mjög áhugaverðir. Framundan eru stór útboð og nýskráningar sem breyta ásýnd markaðarins töluvert. Svo er stóra spurningarnar: Hvenær munu skammtímavextir taka að hækka á ný og hversu mikið og hratt munu þeir hækka,“ segir Stefán Broddi, en stýrivaxtahækkanir verka jafnan til lækkunar á hlutabréfaverði samfara hækkandi fjármögnunarkostnaði fyrirtækja.