Gengi hlutabréfa útgerðarrisans Brims hefur hækkað um rúmlega sjö prósent í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni en samtals nemur veltan með bréf félagsins 42 milljónum króna. Hlutabréfaverð félagsins stendur nú í 40,95 krónum á hlut.

Hækkunin kemur í kjölfar birtingu á uppgjöri Brims í gær fyrir þriðja ársfjórðung en rekstarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) meira en tvöfaldaðist á milli ára og nam 28,5 milljónum evra.

Þá hefur hlutabréfaverð Arion banka hækkað um nærri eitt prósent í morgun en greint var því eftir lokun markaða í gær að bankastjóri og aðstoðarbankastjóri hefðu keypt bréf í bankanum fyrir samanlagt um 220 milljónir króna.

Hlutabréf Festar, Símans og VÍS hafa einnig hækkað nokkuð í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Hlutabréfaverð Kviku banka hefur hins vegar lækkað um tæplega eitt prósent en bankinn birti uppgjör sitt í gær þar sem kom fram að hagnaður bankans eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 nam 1.913 milljónum króna samanborið við 1.403 milljónir á á sama tímabili í fyrra