Hlutabréfaverð Play hækkaði um 41 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins miðað við útboðsgengið 18 sem almennir fjárfestar keyptu á. Stærri fjárfestar keyptu á genginu 20 og því nemur ávöxtun þeirra 27 prósentum. Viðskipti með bréf á First North-markaði Kauphallarinnar fóru fram á genginu 25,3 og veltan um 450 milljónir króna, að því er fram kemur á Keldunni.

Skráning í Kauphöllina kemur í kjölfar hlutafjárútboðs flugfélagsins þar sem áttföld umframeftirspurn var eftir hlutabréfum.

Skráningu Play á hlutabréfamarkað var fagnað með því að bringja kauphallarbjöllunni í 12 þúsund feta hæð yfir hálendi Íslands.

„Síðustu vikur hefur Plau fagnað komu fyrstu flugvélarinnar, fyrsta fluginu, hlutafjárútboði, komu annarrar flugvélar og að sjálfsögðu afnámi sóttvarnatakmarkana á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Play.

„Eftir ótrúlegar móttökur í hlutafjárútboðinu, afléttingu sóttvarnatakmarkana og mikinn meðbyr síðustu daga ættum við að geta leyft okkur að vera bjartsýn á framhaldið enda held ég að sjaldan hafi flugfélag verið eins vel undirbúið, eða jafn vel fjármagnað, til að nýta þau tækifæri sem gefast,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.