Hlutabréfaverð Norwegian hafa hækkað um tæplega 19 prósent það sem af er degi. Fjárfestar vænta þess að stórt yfirtökutilboð sé í undirbúningi.

Nokkur flugfélög hafa á síðustu árum sýnt kaupum á norska lággjaldaflugfélaginu áhuga við mikinn fögnuð fjárfesta sem telja margir hverjir að yfirtaka á norska félaginu sé besta leiðin til þess að forða því frá gjaldþroti.

Reuters greinir frá og vísar til fréttar spænska fréttamiðilsins Expansion. Spænska flugsamsteypan International Airlines Group (IAG), móðurfélag British Airways, lýsti sem kunnugt er yfir áhuga á Norwegian í fyrra og keypti 4,6 prósenta hlut í norska félaginu með það fyrir augum að ganga til yfirtökuviðræðna við stjórn þess.

Stjórnendur IAG sögðust hættu við áformin um yfirtökuviðræður í febrúar og seldu allan hlutinn í Norwegian með þeim afleiðingum að hlutabréfaverðið í norska flugfélaginu hríðféll um tuttugu prósent.