Hlutabréf í Kauphöllinni lækkuðu við opnun markaða í morgun. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,7 prósent.

Viðmælendur Fréttablaðsins rekja lækkunina til þess að Ísland komst ekki inn hjá MSCI vísitölufyrirtækinu eins og væntingar stóðu til.

Fram kom á fréttavef Fréttablaðsins seint á föstudag að íslenski hlutabréfamarkaðurinn verði ekki flokkaður sem vaxtarmarkaður hjá MSCI, einu stærsta vísitölufyrirtæki heims, að svo stöddu. Þetta var niðurstaða MSCI eftir samráð við alþjóðlega stofnanafjárfesta en Ísland verður áfram á athugunarlista MSCI.

„Þó að íslenski verðbréfamarkaðurinn uppfylli flest skilyrði til að verða flokkaður sem vaxtamarkaður er þessi ákvörðun byggð á frekari greiningu í kjölfar endurgjafar, þar sem alþjóðlegir stofnanafjárfestar lýstu áhyggjum yfir tilkynningarferli vegna erlendra gjaldmiðla, aðgengi að verðbréfamiðlurum, og að fjármagnshöft hafi aðeins nýlega verið afnumin,“ sagði í tilkynningu MSCI.

Festi hefur lækkað um 3,4 prósent, Skeljungur um 3,2 prósent, Hagar um 3,2 og Kvika um 2,9 prósent.

Eimskip er eina félagið sem hefur hækkað og nemur hækkunin 1,2 prósentum.