Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,9 prósent það sem er degi vegna ótta fjárfesta við nýtt afbrigði af kórónaveirunni. Erlendis hafa hlutabréfamarkaðir sömuleiðis lækkað, einkum félög sem verða mest fyrir barðinu á heimsfaraldrinum eins og ferðaþjónusta. Sérfræðingar sem Financial Times ræddi við óttast að nýja afbrigðið muni draga úr hagvexti.

Nýja afbrigðið, B.1.1.529 Sars-Cov-2, sem uppgötvaðist fyrst í Botswana er talið vera ástæða þess að Covid-smitum hafi fjölgað í Suður-Afríku undanfarna viku. Óttast er að nýja veiran sé meira smitandi en Delta-afbrigðið og geti smeygt sér fram hjá bóluefnum.

Evrópusambandið og Bretland hafa komið á ferðatakmörkunum á fjölda landa í Suður-Afríku. Á sama tíma hefur olía lækkað um fimm prósent, aðrar hrávörur fyrir utan gull hafa líka lækkað og fjárfestar í Evrópu hafa keypt ríkisskuldabréf.

Icelandair hefur lækkað um 3,6 prósent, Eimskip um 2,8, Brim um 2,6 og Marel um 2,4 prósent. Ekkert félag hefur hækkað það sem af er degi.