Verð hlutabréfa Icelandair hefur lækkað um tæp 4 prósent í 39 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi í Kauphöllinni. Hlutabréfaverðið hefur ekki verið lægra í rúmlega sjö ár.

Árásir á tvö olíumannvirki Saudi Armaco í Sádí-Arabíu og fréttir af því að olíuframleiðsla verði töluvert undir framleiðslugetu á næstu vikum hafa þrýst upp heimsmarkaðsverði á olíu. Hækkaði verðið um allt að 20 prósent eftir að markaðir opnuðu í morgun.

Eftir lækkunina stendur gengi hlutabréfa Icelandair í 6,51 krónu. Það hefur ekki verið lægra síðan síðan í maí 2012 þegar það stóð í 6,43 krónum. Síðast náði gengi bréfanna lágmarki 8. október á síðasta ári þegar það fór niður í 6,53 krónur.

Hlutabréf Icelandair hafa lækkað um meira en 40 prósent frá því í um miðjan júní þegar gengið var 11,1 króna sem er hæsta gildi þessa árs.