Hlutabréf í Rússlandi hafa fallið um meira en þriðjung í kjölfar þess að Vladimir Putin, forseti Rússlands, réðst inn í Úkraínu. Vísitalan hefur lækkað um tæp 50 prósent frá upphafi árs. Gengi rússnesku rúblunnar féll um tíu prósent miðað við Bandaríkjadal í dag.

Evrópska hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 hefur lækkað um tæp þrjú prósent. Á skömmum tíma nemur lækkunin tíu prósentum.

Hráolía hefur hækkað um tæp sjö prósent í verði í dag og hefur ekki verið hærri síðan árið 2014. Fjárfestar hafa dregið sig úr áhættusamari eignaflokkum og keypt ríkisskuldabréf. Gull hefur ekki verið hærra í 13 mánuði.

Að undanförnu hefur möguleg innrás Putins haft mikið að segja um verðþróun á fjármálamörkuðum því refsiaðgerðir gegn Rússlandi gætu haft í för með sér að orka landsins og auðlindir myndu ekki vera hluti af alþjóðlegri aðfangakeðju. Við það myndi draga verulega úr framboði á orku.

Sunil Krishnan, sem fer fyrir blönduðum sjóðum hjá Aviva Investors, segir að það gæti leitt til aukinnar verðbólgu og dregið úr hagvexti. „Við þurfum að fylgjast með evrusvæðinu en það mun einnig hafa áhrif á Bandaríkin,“ segir hann við Financial Times.

Robert Rennie hjá Westpac segir að það kæmi sér ekki á óvart ef stríðið heldur áfram að hráolía hækki í 120 Bandaríkjadali á tonnið. Nú er verðið 103 Bandaríkjadalir.