Hlutabréf í Icelandair Group ruku upp um hátt í fimmtán prósent í verði í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Á sama tíma lækkuðu hins vegar hlutabréf í flestum öðrum skráðum félögum á bilinu eitt til þrjú prósent í verði.

Gengi hlutabréfa í Icelandair fór yfir 8 krónur á hlut i fyrstu viðskiptunum en til samanburðar stóð gengið í 7,2 krónum á hlut eftir lokun markaða í gær.

Um tíuleytið höfðu hlutabréf í flugfélaginu hækkað um ríflega átta prósent í verði.

Eins og greint er frá í Markaðinum í dag viðruðu forsvarsmenn WOW air, helsta keppinautar Icelandair, um liðna helgi hugmyndir um að stjórnvöld veittu flugfélaginu ríkisábyrgð á lánafyrirgreiðslu frá Arion banka til þess að tryggja rekstur félagsins til skemmri tíma.

Rætt hefur verið óformlega um hugmyndir flugfélagsins, samkvæmt heimildum Markaðarins, en afar ósennilegt er talið að stjórnvöld muni ljá máls á þeim.

Þá kom fram í frétt blaðsins að mikil óvissa ríkti nú um framgang viðræðna WOW air og Indigo Partners, hins bandaríska fjárfestingafélags Bill Frankes.  Eru horfur á að kaup Indigo í íslenska félaginu nái fram að ganga sagðar tvísýnni nú en áður. Eru stjórnvöld vel upplýst um gang mála.