Hlutabréfaverð í Evrópu hefur hækkað fimm mánuði í röð samhliða því að fjárfestar telja að hagkerfið muni ná vopnum sínum eftir að unnið hefur bug á Covid-19 heimsfaraldrinum, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Á fimm mánaða tímabili hefur íslenska úrvalsvísitalan hækkað um 17 prósent en vísitala fyrir hlutabréfaverð á Norðurlöndunum hefur hækkað um 13 prósent, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.

Vísitalan Stoxx Europe 600, sem mælir hlutabréfaverð í Evrópu, hefur hækkað um ríflega tvö prósent undanfarin mánuð jafnvel þótt að hlutabréfaverð á Spáni lækkaði eftir að upplýst var að þar í landi yrðu breskir ferðamenn að framvísa vottorði um að vera bólusettir gegn Covid-19. Spænska hagkerfið byggir mikið á ferðamennsku, segir í frétt Financial Times.

Verðbólgan í Bandaríkjunum var aðeins minni en hagfræðingar höfðu reiknað með í maí. Sömuleiðis hefur Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, samið um að verja háum fjárhæðum í innviði eða um eina billjón Bandaríkjadala (e. trillion). Þau tíðindi virðast hafa farið ágætlega í fjárfesta vestanhafs.

Fjárfestar ættu engu að síður að búast við að markaðir verði þeim ekki jafn hagfelldir á næstu mánuðum, sagði Vishwanath Tirupattur hjá Morgan Stanley.

Bandaríski Seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann muni leggja sitt á vogarskálarnar til að halda uppi fullri atvinnu. Þess vegna munu fjárfestar horfa mikið til atvinnuleysistalna þar í landi sem birtast munu á föstudaginn. Sérfræðingar hafa spáð því að störfum muni fjölga um tæplega 700 þúsund samanborið við 559 þúsund í mánuðinum á undan.