Hlutabréf í Arion banka féllu um hátt í þrjú prósent í verði í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun í kjölfar afkomuviðvörunar sem bankinn sendi frá sér í gærkvöldi.

Gengi hlutabréfa í bankanum stóð í 80,5 krónum á hlut þegar markaðir lokuðu í gær en fór niður í 78,1 krónu á hlut skömmu eftir að opnað var fyrir viðskipti í morgun. Bréfin hafa hækkað um nærri sjö prósent í verði á undanförnum þremur mánuðum.

Í afkomuviðvörun Arion banka kom fram að neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu á afkomu bankans á fjórða fjórðungi síðasta árs yrðu um átta milljarðar króna. Þar af þyrfti að færa niður óefnislegar eignir dótturfélagsins Valitors um fjóra milljarða króna.

Í tilkynningunni var þó tekið fram að áhrifin á eiginfjárhlutföll bankans væru óveruleg. Hlutföllin væru áfram sterk.

Afkoma bankans á síðasta ári, að teknu tilliti til áhrifa af aflagðri starfsemi og eigna til sölu, er um einn milljarður króna.