Sé litið til verðþróunar einstakra félaga á OMX-markaðnum í kauphöllinni hækkaði Brim mest í mars, um tæp 19 prósent. Næstmest hækkaði Skeljungur, eða um 13,5 prósent, og þriðja mesta hækkunin var hjá Eimskip, eða 11,9 prósent. Þar á eftir komu Síldarvinnslan (11 prósent), Reginn (9,5 prósent) og Hagar (9 prósent). Mesta lækkunin var hjá Iceland Seafood en félagið lækkaði um rúm 8 prósent. Þar á eftir kom Sýn með 8,1 prósent lækkun og VÍS með 6,7 prósent lækkun. Þar á eftir komu svo Icelandair Group (-6,2 prósent), Origo (-3,9 prósent) og Arion banki (-2,8 prósent). Alls hækkaði verð 13 félaga en 6 félög lækkuðu. Eitt stóð í stað en það var Íslandsbanki.

Brim hækkaði mest í íslensku kauphöllinni í mars.

Eimskip hækkað mest síðustu 12 mánuði

Sé horft til 12 mánaða ávöxtunar einstakra félaga heldur Eimskip enn þá efsta sætinu með tæplega 108 prósenta hækkun. Skammt þar á eftir kemur Brim sem hefur hækkað um tæp 90 prósent. Þar á eftir kemur Origo með tæplega 80 prósenta hækkun. Stærsta félagið í Kauphöllinni, Marel, er annað tveggja félaga sem hafa lækkað í verði á síðustu 12 mánuðum, um 12,1 prósent. Iceland Seafood hefur lækkað um 10,6 prósent en þá lækkun má að stóru leyti skýra með þeirri lækkun sem varð í mars. Minnsta hækkunin er hjá Kviku banka, eða 12,5 prósent. Næstminnsta hækkunin er einnig hjá öðrum banka, Íslandsbanka, en það skýrist að hluta til af því að félagið var skráð á markað í júlí á síðasta ári og á því ekki 12 mánaða sögu.

Verð hlutabréfa í Eimskip hefur meira en tvöfaldast síðustu 12 mánuði.

Íslenski markaðurinn hækkaði um 4,2 prósent í mars

Íslenski markaðurinn hækkaði um 4,2 prósent í mars samkvæmt heildarvísitölu OMX. Hlutabréfamarkaðir helstu viðskiptalanda Íslands hækkuðu einnig flestir. Hækkunin var mest í Noregi, 7,2 prósent, en næstmest hér á landi. Þar á eftir kom Kanada með 3,6 prósenta hækkun og Bandaríkin með 3,2 prósenta hækkun. Mest var lækkunin í Kína, eða 6,1 prósent. Þar á eftir kom Þýskaland með 4,4 prósenta lækkun. Finnland lækkaði einnig lítillega, eða um 0,5 prósent.

Noregur hækkaði mest og Ísland næstmest í mars.

Í byrjun mars varð töluverð lækkun á innlendum hlutabréfamarkaði rétt eins og annars staðar. Heimsmarkaðsverð olíu var þá að hækka mjög hratt og hafði það mikil áhrif á hlutabréfamarkaði. Þann 8. mars náði verðið lágpunkti mánaðarins og hafði þá lækkað um 6,4 prósent á einni viku. Síðan tók við mjög snögg hækkun og náði heildarvísitalan sínu hæsta gildi um miðjan mars og hafði þá hækkað um 4,6 prósent frá byrjun mars og endaði í 4,2 hækkun miðað við upphaf mánaðarins.

Ísland hefur hækkað mest síðustu 12 mánuði.

Mesta 12 mánaða hækkunin hefur verið hér á landi

Ef við berum Ísland saman við helstu viðskiptalönd okkar hefur markaðurinn hér á landi skilað mestri ávöxtun síðustu 12 mánuði. Ávöxtunin var 26 prósent hér á landi. Næstmest hefur hún verið í Noregi, tæp 24 prósent, en þar á eftir kemur Kanada með 17 prósenta hækkun. Þrír markaðir lækkuðu en lækkunin í Þýskalandi var mest, eða 3,4 prósent. Þar á eftir kemur Finnland með 2,1 prósenta lækkun og Japan með 0,4 prósenta lækkun. Minnsta hækkunin hefur verið í Svíþjóð, 1,6 prósent.