Prófanir verða brátt hafnar á lengsta sæstreng sem lagður hefur verið til flutnings á rafmagni, en hann liggur undir Norðursjó og tengir raforkukerfi Bretlands og Noregs. Financial Times greinir frá.

Á næstu dögum verður prófað að flytja rafmagn á lágri spennu. Háspennuprófanir taka við síðar í sumar.

Sæstrengurinn er 720 kílómetra langur og ber nafnið North Sea Link. Kostnaður við verkefnið er metinn á um tvo milljarða evra, sem samsvarar um 295 milljörðum króna.

Til samanburðar yrði sæstrengur milli Íslands og Bretalands sem var til umræðu fyrir nokkru um 1100 kílómetra langur, eða um það bil 52 prósent lengri. Samkvæmt mati Kviku banka og finnsku ráðgjafanna Poyry frá árinu 2016 yrði kostnaður við sæstreng milli Íslands og Bretland á bilinu 440-515 milljarðar króna.

Flutningsgeta eru um 1400 megavött, sem samsvarar um það bil uppsettu afli meðalkjarnaljúfs. Sæstrengurinn er samstarfsverkefni Statnett og National Grid, en bæði fyrirtæki annast rekstur flutningskerfa raforku í sínum heimalöndum. Munu þau skipta ágóðanum af rekstri sæstrengsins jafnt sín á milli.

Með tilkomu strengsins mun Bretland geta dregið úr notkun kolefnisorkugjafa og flutt inn raforku frá vatnsaflsvirkjunum Norðmanna.

Mikil uppbygging vindorku hefur átt sér stað í Bretlandi á undanförnum árum. Því hyggjast Bretar einnig nýta sér þann möguleika geta flutt út umframorku til Noregs á einstaklega vindasömum dögum við Bretlandseyjar þegar umframorkuframleiðsla á sér stað. Sem þýðir þá að Norðmenn geta hægt á niðurdragi sinna uppistöðulóna við þær aðstæður.

Næsti stóri sæstrengur Breta verður lagður til Danmerkur og mun verða örlítið lengri en sá til Noregs og hafa sömu flutningsgetu. Strengurinn til Danmerkur ber nafnið Viking Link og á að verða tilbúinn til notkunar árið 2024. Á næsta ári verður svo lagður rafstrengur milli Bretlands og Frakklands, en hann mun nýta Ermasundsgöngin og er lagning hans því einfaldari í framkvæmd.

Financial Times greinir frá því að North Sea Link geti mögulega lagt grunninn að öðrum verkefnum sem lengi hafi verið á teikniborðinu, svosem sæstrengs til Íslands.

Í dag geta Bretar flutt alls 6000 megavött inn í gegnum rafstrengi frá öðrum löndum, en fyrir lok árs 2030 verður sú tala komin upp í 18000 megavött.

North Sea Link tengir Blyth í norðurhluta Bretlands og Kvilldal í Suður-Noregi.