Hjörvar Hafliðason hefur verið ráðinn í nýja stöðu íþróttastjóra og mun leiða Viaplay sport á Íslandi. Hann mun jafnframt bera ábyrgð á að Viaplay sé í fararbroddi á hágæða íþróttaumfjöllun á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viaplay.

Hjörvar hefur fram að þessu starfað sem sérfræðingur Stöðvar 2 sport um meistaradeildina og innlendan fótbolta en hefur nú látið af störfum hjá Sýn. Auk þess er hann umsjónarmaður eins vinsælasta hlaðvarps landsins Dr. Football. Hjörvar segir í samtali við Fréttablaðið að Dr. Football muni halda áfram með óbreyttu sniði. Hann hlakkar til þess að takast á við nýjar áskoranir með Viaplay.

„Alveg síðan Viaplay opnaði á Ísland hef ég verið aðdáandi þjónustunnar. Með þeim sýningarréttum frá stærstu fótbolta viðburðunum sem hafa bæst við nýlega ætti öllum að vera ljóst að Viaplay verður leiðandi þjónusta í íþróttaumfjöllun í framtíðinni. Þess vegna þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um þegar tækifærið gafst. Ég er hrifinn af háleitum markmiðum og ég er viss um að ég geti spilað lykilhlutverk í að ná þeim. Ég get ekki beðið eftir að byrja," segir Hjörvar í tilkynningu.

NENT Group sem sér um Viaplay tryggði sér samkomulag við Knattspyrnusamband Evrópu um sýningarrétt á landsleikjum Íslands frá 2022-2028 og öðrum landsleikjum í Evrópu í byrjun febrúar.

Áætlað er að Viaplay sýni frá 60 landsleikjum á sex ára tímabili frá 2022-2028 ásamt því að sýna frá 1200 öðrum leikjum á Viaplay.

Auk landsleikja á vegum Knattspyrnusambands Evrópu á NENT Group íslenska sýningarréttinn á Meistaradeild Evrópu, Evrópudeildinni, UEFA Conference League og þýsku, dönsku, skosku, þýsku og hollensku úrvalsdeildunum, úrvalsdeild kvenna í Frakklandi, frönsku bikarkeppninni, Þjóðadeild CONCACAF, Suður-Ameríkukeppninni 2021 og undankeppni Afríku fyrir Heimsmeistaramótið 2022, sem og Formúlu 1, NHL, Heimsmeistaramótinu í íshokkíi, UFC, þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik, MLB og NASCAR.