Hjónin Steinunn Jónsdóttir og Finnur Reyr Stefánsson keyptu eitt prósent hlut í Síldarvinnslunni í hlutafjárútboði sem lauk nýverið í aðdraganda skráningar útgerðarinnar á hlutabréfamarkað. Kaupin fóru fram í gegnum fjárfestingafélagið Snæból. Miðað við útboðsgengið 60 var kaupverðið einn milljarður króna. Þau eru áttundi stærsti hluthafi útgerðarinnar. Þetta má lesa í nýjum hluthafalista yfir 20 stærstu eigendur Síldarvinnslunnar.

Guðni Rafn Eiríksson, eigandi Apple-umboðsins á Íslandi, keypti 0,5 prósenta hlut í Síldarvinnslunni fyrir tilstilli A80. Miðað við útboðsgengið var kaupverðið hálfur milljarður króna. Hann er 13. stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar.

Samherji seldi fyrir 12 milljarða

Samherji er eftir sem áður stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar. Hann seldi tólf prósenta hlut í útboðinu fyrir um 12,2 milljarða króna og minnkaði hlut sinn í 32,6 prósent.

Kjálkanes, næststærsti hluthafi útgerðarinnar, seldi 15 prósenta hlut fyrir 15,3 milljarða króna og á nú 19,2 prósenta hlut. Hluthafar Kjálkaness eiga meðal annars útgerðina Gjögur á Grenivík. Stærstu hluthafar eignarhaldsfélagsins með 45 prósenta hlut eru systkinin Anna og Ingi Jóhann Guðmundsbörn.

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, þriðji stærsti eigandinn, hélt sínum ellefu prósenta hluti. Raunar keypti félagið fyrir 1,3 milljónir í útboðinu.

Fram kom í Markaðnum fyrir viku að lífeyrissjóðurinn Gildi hafi keypt þriðjung alls hlutafjársins sem selt var í útboðinu fyrir 10,1 milljarð króna. Aðrir íslenskir lífeyrissjóðir keyptu fyrir miklu lægri fjárhæðir. Sjóðurinn er fjórði stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar. Almenni lífeyrissjóðurinn, sjötti stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar, kom næst á eftir Gildi með um 1.430 milljónir sem tryggði sjóðnum um 1,4 prósenta eignarhlut í útgerðinni.

Eignarhaldsfélagið Sæfugl seldi um eitt prósent hlut fyrir einn milljarð króna í hlutafjárútboðinu og heldur eftir 4,3 prósentum í Síldarvinnslunni. Félagið er staðsett á Reyðarfirði. Halldór Jónasson á 54 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Stefnir – ÍS 15 keypti 0,8 prósenta hlut í Síldarvinnslunni og er þar með ellefti stærsti hluthafinn og Stefnir – ÍS 5 keypti 0,6 prósenta hlut.

Askja fagfjárfestasjóður í rekstri Landsbréfa keypti 0,5 prósenta hlut, Júpíter sem er í rekstri hjá Kviku keypti 0,5 prósenta hlut, Landsbréf keyptu 0,4 prósenta hlut, Landsbréf – Úrvalsbréf 0,4 prósenta hlut og Stefnir – Samval 0,3 prósenta hlut.

Eigið fé fjárfestis 1,2 milljarðar króna

Víkjum aftur að einkafjárfestunum sem keyptu stóra hluti í hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar.

Eigið fé A80 sem keypti fyrir hálfan milljarð í útboðinu var 923 milljónir króna en eignirnar 1,5 milljarðar króna við árslok 2020. Eigið fé GE Capital sem á A80 var 1,2 milljarðar króna við árslok 2020.

Fram hefur komið á vef Fréttablaðsins að eigið fé Snæbóls sem keypti fyrir milljarð í Síldarvinnslunni var 15,9 milljarðar króna við árslok 2020. Steinunn, sem á helmings hlut í Snæbóli, er dóttir Jóns Helga Guðmundssonar, stjórnarformanns Norvik-samstæðunnar sem meðal annars á Byko.

Í fjárfestakynningu vegna útboðs Síldarvinnslunnar kom fram að stjórnendur félagsins áætli að árið 2021 muni verða það besta í mörg ár og að EBITDA-hagnaður muni nema á bilinu 9 til 10 milljörðum króna. Þá er stefnt að því að 30 prósent hagnaðar verði greidd út í arð til hluthafa á hverju ári en eiginfjárhlutfall félagsins var 68 prósent í árslok 2020.