Það er mikilvægt að hafa það í huga að við munum ekki – og eigum ekki – að hjálpa öllum fyrirtækjum landsins, aðeins þeim sem eru lífvænleg,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Í viðtali við Fréttablaðið leggur hann áherslu á að það sé undir bönkunum komið að leiða þá vinnu sem er nú er í vændum vegna efnahagsáhrifa kórónaveirufaraldursins. „Það er enginn annar en þeir sem getur ákvarðað hvaða fyrirtæki eiga skilið að lifa og fá fjármagn til að komast í gegnum þessar hremmingar. Eitt af því sem var gagnrýnt eftir bankahrun var þegar fólk og fyrirtæki, sem höfðu kannski skuldsett sig hvað mest í aðdraganda þess, fengu mestu afskriftirnar. Við viljum ekki hafa þann brag á þessum aðgerðum sem við erum núna að grípa til,“ segir Ásgeir.

Er ekki staða efnahagsmála nú mun alvarlegri en Seðlabankinn taldi fyrir aðeins um mánuði?

„Staðan hefur vissulega versnað. Sérstaklega vegna þess að þróun mála erlendis hefur verið mun alvarlegri en við bjuggumst við, einkum þó í Bandaríkjunum. Téð veira er greinilega mun meira smitandi og hættulegri en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. Það hefur leitt til þessara hörðu aðgerða sem stjórnvöld um allan heim hafa gripið til. Þannig að ég óttast að efnahagsáhrifin af þeim muni vara lengur en við áætluðum í upphafi. Af þeim sökum má nánast slá því föstu að það verði lítið úr ferðaþjónustu á árinu.

Á hinn bóginn virðist sem við séum að ná tökum á ástandinu hér innanlands og í maí verði hægt að slaka á ýmsum af þeim hömlum sem nú er í gildi. Þá jafnframt að við sem búum í landinu getum farið að lifa sem næst eðlilegu lífi í sumar og innlend eftirspurn geti því aftur farið að taka við sér. Það mun strax létta verulega á efnahagslífinu.“

Hvaða þýðingu hefur það að okkar stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þurrkast nánast út?

„Þetta er verulegt efnahagslegt áfall. Á síðasta ári vorum við með um 172 milljarða viðskiptaafgang sem var að miklu leyti ferðaþjónustunni að þakka. Þessi afgangur þurrkast út en það bendir ekkert til þess að við munum lenda í miklum viðskiptahalla. Þjónustujöfnuðurinn mun líklega fara aftur í það horf sem hann var fyrir árið 2011 – og vera nálægt núlli. Íslendingar munu ekki eyða peningum í útlöndum og erlendir ferðmenn ekki eyða peningum á Íslandi.

Við höfum verið með eilítinn halla á vöruskiptunum síðustu misseri. Sá halli ætti að hverfa í ljósi þess hve innlend eftirspurn er nú að dragast skarpt saman. Fyrir suma er kannski erfitt að trúa því en það bendir ekkert til þess að áfall ferðaþjónustunnar muni skapa alvarlegan vanda á greiðslujöfnuði, svo sem með miklum viðskiptahalla.“

Þú hefur þá ekki áhyggjur af því að þessi skellur í ferðaþjónustu muni leiða til gengisfalls?

„Nei, það held ég ekki. Þrátt fyrir áfallið ætti greiðslujöfnuður að haldast í jafnvægi og krónan að vera nokkuð stöðug. Gengið hefur lækkað um tíu prósent frá áramótum, sem er að mínu viti eðlilegt, enda erum við lítið, opið hagkerfi og þegar við verðum fyrir slíkum útflutningsskelli á gengið að lækka. Það er hins vegar ekkert sem kallar á það að gengið veikist mikið meira. Þá ætti gjaldeyrisforðinn, sem nú telur um 950 milljarða, að gefa okkur trúverðugleika og svigrúm til þess að viðhalda gengisstöðugleika.

Það er engum blöðum um það að fletta að við munum geta mætt þessu áfalli og mildað það verulega með aukningu ríkisútgjalda og slökun peningastefnunnar.

Við álítum aukinheldur að þessi gengisveiking sé ekki til þess fallin að fara að valda mikilli verðbólgu og við sjáum það í verðbólguvæntingum að þær eru enn við okkar markmið. Aðrir þættir vega á móti eins og húsnæðismarkaðurinn, sem vigtar um fjórðung í vísitölu neysluverðs, og eins miklar verðlækkanir á hrávörumörkuðum. Ég held að slíkar innflutningsvörur verði í raun á útsölu vegna þess hvað það er lítil eftirspurn. Verslanir hér heima munu sömuleiðis eiga erfitt með að ýta verðhækkunum út í verðlagið vegna lítillar eftirspurnar.“


Getum mætt þessu áfalli


Er þetta áfall verra en bankahrunið?

„Það er stundum einhver samkvæmisleikur í gangi að bera þetta ástand saman við bankahrunið 2008. Staðan núna er þó allt önnur og áfallið verður alls ekki jafn slæmt og þá. COVID-19 kreppan stafar af því að ríkisstjórnir landa hafa lokað á samgöngur, samskipti og framleiðslu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Þetta er sjálfskipuð kreppa og stafar því ekki af einhverjum undirliggjandi kerfisvandamálum líkt og fjármálakreppur. Ef allt gengur að óskum á hagkerfið eftir að taka við sér eftir að veikin er liðin hjá. Það kann hins vegar að vera að afleiðingarnar verði langvinnari, meðal annars ef útgjöld vegna kreppunnar leiða til ríkisfjármálakreppu hjá hinum skuldsettu löndum í Evrópu.

Réttu viðbrögðin við þessari kreppu felast í því að færa tekjur úr framtíðinni til dagsins í dag, svo sem að ríkið auki útgjöld sín til þess að reyna að tryggja tekjur fólks og taki til þess lán sem greidd verða með skatttekjum framtíðar. Og að bankarnir og aðrir lánardrottnar veiti greiðslufresti og lán út á tekjur framtíðar, jafnframt því að Seðlabankinn lækki vexti og tryggi nægilega djúpa lausafjárþekju til þess að gera þessa tekjumillifærslu auðveldari. Okkur ætti að geta tekist vel til í ljósi þess hve óskuldsett við erum.

Þá vil ég ítreka að allar þær sviðsmyndir, spár eða getgátur sem hafa komið fram eru settar fram án þess að aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, sem nú þegar hefur verið ráðist í, séu teknar með í reikninginn. Það er engum blöðum um það að fletta að við munum geta mætt þessu áfalli og mildað það verulega með aukningu ríkisútgjalda og slökun peningastefnunnar, ástandið virðist því ekki verða jafn svart eins og nú heyrist á skotspónum.“

Ásgeir bendir á að verkalýðshreyfingin hér á landi hafi sögulega ávallt haft þá megináherslu að vernda störf launafólks þegar kreppt hefur að í efnahagslífinu.

Búið er að boða kaup á ríkisskuldabréfum fyrir allt að 150 milljarða en kæmi til greina að ganga lengra og kaupa meðal annars víxla útgefna af stærri fyrirtækjum?

„Við myndum, eins og staðan er núna, fara mjög varlega í að taka að slíka áhættu á efnahagsreikning Seðlabankans með kaupum á óveðtryggðum fyrirtækjalánum. Slíka aðgerð þyrfti að hugsa skýrt og að öðrum kostum fullreyndum. Við viljum sjá hvernig málin munu þróast – og bregðast við aðstæðum. Það vantar ekki meira lausafé inn í bankakerfið eins og sakir standa.“

Af hverju erum við með vexti við aðstæður þar sem öll eftirspurn í hagkerfinu hefur nánast horfið?

„Það kemur alveg til greina að lækka vexti enn meira, það er ákvörðun peningastefnunefndar. Það sem mælir á móti vaxtalækkun er að hún gæti þrýst á vaxtamun bankanna og haft áhrif á útlánagetu þeirra. Þá viljum við, eins og staðan er nú, viðhalda jákvæðum vaxta­mun við útlönd til þess að styðja við gjaldeyrismarkaðinn. Áherslan er á miðlun peningastefnunnar – farvegum fjármagnsins frá bönkunum til heimila og fyrirtækjanna. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að við höfum ákveðið að ráðast í magnbundna íhlutun með kaupum á ríkisskuldabréfum. Við viljum hafa áhrif út allt vaxtarófið – og koma í veg fyrir að aukin ríkisútgjöld hækki langtímavexti.“

Það væri algjörlega ótækt af Arion banka að íhuga slíkar arðgreiðslur við þessar aðstæður, þar sem verið er að veita bönkunum tilslakanir, og hið sama gildir um kaup á eigin bréfum

Hafa bankarnir nægjanlegan hvata til að lána út til þeirra fyrirtækja sem vantar sárlega fjármagn?

„Bankar ættu að hafa hag af því að halda í sína lífvænlegu viðskiptavini og þeir hafa svigrúm til þess, meðal annars vegna aðgerða Seðlabankans sem skapað hefur svigrúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 millörðum, eða um 12,5% af núverandi útlánasafni. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, í samstarfi við Seðlabankann, vinnur nú að því hvernig staðið verður að framkvæmd viðbótarlána með ríkisábyrgð að hluta til fyrirtækja sem mun auka hvatann frekar. Útfærsla samkomulagsins skiptir miklu og hér þarf að vanda til verka.“

Aðspurður segir Ásgeir ekki liggja fyrir hver vaxtakjör lánanna verða.


Ótækt að greiða út arð


Er ekki hætta á því að fyrirtæki landsins verði öll meira og minna skuldum vafin, einkum ferðaþjónustan, eftir tímabundið tekjuleysi og verði því í erfiðri stöðu til að sækja fram þegar þessum faraldri linnir?

„Jú, það er alveg rétt. Það verður erfitt fyrir þessi fyrirtæki að þola langan tíma án tekna. Það er einnig takmarkað hve miklum skuldum er hægt að safna. Þær aðgerðir sem er búið að ráðast í, bæði af hálfu ríkisins og Seðlabankans, eru mjög góðar fyrstu aðgerðir.“

Seðlabankastjóri bendir á að ferðaþjónustan hafi verið í varnarbaráttu áður en þessi kóróna­veirufaraldur hófst.

„Það má færa fyrir því rök að það hafi átt sér stað offjárfesting í þessari grein á síðustu árum. Ferðafólki fækkaði töluvert á síðasta ári sem óhjákvæmilega setti þrýsting á greinina og kallaði á hagræðingu. Það hefur orðið ákveðin kerfisbreyting ef við miðum við ástandið þegar atvinnugreinin byggðist upp á árunum eftir hrun. Ísland hefur breyst frá því að vera hálfgert láglaunaland í alþjóðasamanburði árið 2011. Nú eru íslensk laun ein þau hæstu innan OECD.

Fyrir mannafls­freka atvinnugrein er þetta mikil áskorun sem kallar á að ferðaþjónustan hugi frekar að gæðum en magni – og geti með góðum hætti selt vörur og þjónustu á hærra verði en þekkist víða annars staðar. Það má segja að gjaldþrot WOW air hafi verið liður í að flýta fyrir þessari þróun og við þær aðstæður sem eru núna uppi mun það gera þessa aðlögun einfaldari en ella.“

Finnst þér koma til greina að Arion, eini bankinn á markaði, fari fram með upphafleg áform sín um að greiða út 10 milljarða arð síðar á árinu eða haldi áfram kaupum á eigin bréfum?

„Það væri algjörlega ótækt af bankanum að íhuga slíkar arðgreiðslur við þessar aðstæður, þar sem verið er að veita bönkunum tilslakanir, og hið sama gildir um kaup á eigin bréfum. Seðlabankinn yrði mjög brúnaþungur ef sú staða kæmi upp síðar á árinu, enda hygg ég að eigendur og stjórnendur bankans skilji þessa stöðu mjög vel.“

Ekki hefur náðst samkomulag um að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtækja en ASÍ hafnaði í síðustu viku tillögum Samtaka atvinnulífsins þess efnis.

Gjaldþrota fyrirtæki geta ekki staðið undir launahækkunum

Það verður mjög erfitt fyrir þjóðina að vinna sig út úr þessum vanda nema aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins, nái saman um um skynsamleg markmið við þessar aðstæður, að sögn Ásgeirs, og bendir á að verkalýðshreyfingin hér á landi hafi sögulega ávallt haft þá megináherslu að vernda störf launafólks þegar kreppt hefur að í efnahagslífinu.

„Það blasir við að gjaldþrota fyrirtæki geta ekki staðið undir launahækkunum,“ útskýrir Ásgeir, og segir að þær launahækkanir sem tóku gildi um síðustu mánaðamót á almenna vinnumarkaðinum séu því í reynd borgaðar af ríkissjóði í gegnum hlutabótaleiðina.

Ekki hefur náðst samkomulag um að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtækja en ASÍ hafnaði í síðustu viku tillögum Samtaka atvinnulífsins þess efnis.

Aðspurður segist seðlabankastjóri ekki ætla að segja aðilum vinnumarkaðarins fyrir verkum en undirstrikar hins vegar að samvinna þeirra „hafi ávallt verið sá þáttur sem mestu máli hefur skipt við að koma okkur í gegnum efnahagskrísur. Ég myndi gjarnan vilja sjá það áfram,“ segir Ásgeir.